Fara í innihald

Albert Einstein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Albert Einstein (1947)

Albert Einstein (14. mars 1879 í Ulm í Bæjaralandi, Þýskalandi18. apríl 1955 Princeton, New Jersey, Bandaríkjunum) var kennilegur eðlisfræðingur. Hann fæddist í Ulm, Þýskalandi og var af gyðingaættum. Foreldrar hans hétu Pauline og Hermann. Hann er einn af best þekktu vísindamönnum 20. aldarinnar. Hann lagði til afstæðiskenninguna — sem er líklega hans þekktasta verk — og höfðu rannsóknir hans einnig mikil áhrif á skammtafræði, safneðlisfræði og heimsfræði. Hann fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1921 fyrir rannsóknir sínar á ljóshrifum sem hann birti árið 1905 (Annus Mirabilis; þetta sama ár komu út þrjár greinar eftir hann, en hver þeirra olli straumhvörfum í eðlisfræði) og verðlaun fyrir „þjónustu sína við kennilega eðlisfræði“.

Líf og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Einstein bjó í München mesta bernsku sína, með foreldrum sínum. Hann olli þeim áhyggjum vegna seinþroska síns. Sem barn lærði hann seint að tala, var lítt gefinn fyrir stríðsleiki og leiddist í skóla.

Ungur að árum gerðist Einstein svissneskur ríkisborgari, en í Sviss nam hann stærðfræði og eðlisfræði. Árið 1902 fær hann vinnu á einkaleyfaskrifstofu í Bern, þar sem hann vann til 1909 meðan hann lagði drög að kenningum sínum í frístundum. Árið 1911 fékk Einstein prófessorsstöðu í Prag og síðan í Zürich og Berlín. Hann starfaði innan háskóla þaðan í frá. Árið 1905 birti Einstein þrjár merkilegar ritgerðir. Ein þeirra hét „Um rafsegulfræði hluta á hreyfingu“ en í henni setti hann fram takmörkuðu afstæðiskenninguna. Takmarkaða afstæðiskenningin segir fyrir um það að massi hluta fari eftir hraða þeirra. Árið 1916 birti Einstein almennu afstæðiskenninguna í nokkrum ritgerðum. 1919 var kenningin staðfest með frægri athugun, við sólmyrkva, á sveigju ljóss sem berst frá fjarlægri stjörnu, vegna þyngdarafls sólar. 1921 fékk Einstein Nóbelsverðlaun fyrir framlag sitt til eðlisfræðinnar. Einstein var af Gyðingaættum og hrökklaðist frá Þýskalandi nasismans til Princeton í Bandaríkjunum árið 1933. Þar bjó hann til dauðadags.

Hann giftist serbneskri unnustu sinni, Milevu Marić, 1903, en þau skildu 1919. Þau eignuðust þrjú börn saman, stúlkuna Liserl (1902- ?), sem var gefin til ættleiðingar og dó úr skarlatssótt, synina Hans Albert (1904-1973) og Eduard Tete (1910-1965). Hans Albert varð prófessor í verkfræði við Berkeley-háskólann, en Eduard þjáðist af geðklofa. Mileva nam stærðfræði og eðlisfræði, en þau Einstein unnu saman að rannsóknum, þó ekki séu til heimildir fyrir því að Mileva hafi með beinum hætti komið að Nóbelsverðlaunagreininni né Afstæðiskenningunni. Einstein giftist náfrænku sinni Elsu 1919, en hún átti fyrir tvær dætur, sem þau ólu upp saman.

Afstæðiskenningin

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalgrein: Afstæðiskenningin

Afstæðiskenning Einsteins er yfirleitt sett fram í tvennu lagi eins og hann gerði raunar líka þegar hann birti hugmyndir sínar. Er þá talað um takmörkuðu afstæðiskenninguna annars vegar og hins vegar um almennu afstæðiskenninguna. Kjarna fyrri kenningarinnar birti Einstein í einni tímaritsgrein árið 1905 en hann lauk við að birta meginatriði almennu kenningarinnar árið 1916. Í takmörkuðu kenningunni er megináhersla lögð á ljósið og hluti sem nálgast ljóshraða en í þeirri almennu eru þyngdarkraftar líka teknir með í reikninginn og meðal annars lýst þeim áhrifum sem þeir hafa á rúmið. Kenning sú er ófullkomin þegar maður nýtir hana við tilfelli sem gerast undir smæð atóms, en þar hættir hún að virka. Skammtafræðikenningin á að leysa þann vanda, en Einstein sjálfur átti nokkurn þátt í uppbyggingu hennar. Vísindamönnum hefur gengið illa að samvefja þessar tvær kenningar, en þegar það tekst munu þeir líklega kalla þá kenningu "Kenninguna um Allt".

Wikisource
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um:

Íslenskir tenglar

[breyta | breyta frumkóða]
  翻译: