Fara í innihald

Boston

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Boston
Viðurnefni: 
Borgin á hæð, Baunabær, Vagga frelsisins, Aþena Ameríku, Hreintrúarborgin, Miðpunktur sólkerfisins
Kjörorð: 
Vagga frelsisins
Staðsetning Boston
Land Bandaríkin
Fylki Massachusetts
SýslaSuffolk
Stofnun17. september 1630
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriMichelle Wu (D)
Flatarmál
 • Fylkishöfuðborg232,1 km2
 • Land125,4 km2
 • Vatn106,7 km2
Mannfjöldi
 (2020)[1]
 • Fylkishöfuðborg675.647
 • Áætlað 
(2023)
653.833
 • Stórborgarsvæði
4.800.000
TímabeltiUTC−05:00 (EST)
 • SumartímiUTC−04:00 (EDT)
Svæðisnúmer617 og 857

Boston er höfuðborg og stærsta borg Massachusettsfylkis í Bandaríkjunum. Borgin er einskonar óopinber höfuðborg þess svæðis sem kallað er Nýja England og ein elsta, ríkasta og menningarlega mikilvægasta borg Bandaríkjanna. Efnahagur borgarinnar byggir aðallega á menntun, heilsu, viðskiptum og tækni. Boston var stofnuð 17. september árið 1630 af Bretum í nýlenduleit. Íbúafjöldi í borginni sjálfri er um 653.800 (2023), en á stórborgarsvæðinu eru íbúarnir um 4,8 milljónir talsins (áætlaður fjöldi árið 2016).[1]

Borgin er í miðju Boston-Worcester-Manchester CSA (Combined Statistical Area), sem er hið sjöunda stærsta í Bandaríkjunum. Til þess svæðis teljast hlutar fylkjana New Hampshire, Maine, Rhode Island, og Connecticut. Borgin er líka miðja Stór-Bostonsvæðisins, sem tekur til borganna Cambridge, Brookline, Quincy, Newton og margra úthverfa við Boston.

Boston ber ýmis gæluheiti. Borgin á hæð (e. The City on a Hill) er heiti upprunnið frá landstjóra nýlendunnar við Massachusettsflóa, John Winthrop að nafni. Markmið hans var að búa til borg svipaða þeirri sem nefnd er í Nýja testamentinu: „Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á [hæð] stendur, fær ekki dulist.“ Hún yrði sjáanleg öllum og það myndi tryggja að ef landnemarnir gerðu gegn vilja Guðs þá yrði það öðrum víti til varnaðar. Heitið á einnig við um hæðir þrjár sem Boston var byggð á. Áður fyrr bjuggu kaupmenn í Boston til bakaðar baunir með innfluttum melassa og fékk bærinn því viðurnefnið Baunabær (e. Beantown). Þriðja heitið er Miðpunkturinn, sem er stytt útgáfa af orðtaki rithöfundarins Oliver Wendell Holmes: „Miðpunktur sólkerfisins“ eða alheimsins. William Tudor, einn stofnenda North American Review, nefndi borgina Aþenu Ameríku vegna menningarlegs mikilvægi hennar og andlegra áhrifa. Borgin er stundum kölluð Hreintrúarborgin því stofnendur hennar voru hreintrúarmenn og einnig Vagga frelsisins vegna mikilvægi hennar í frelsisstríði Bandaríkjanna. Íbúar Boston og nágrennis eru gjarnan kallaðir „Bostonians“ á ensku.

Hreintrúaðir landnemar frá Englandi stofnuðu Boston þann 17. september árið 1630 á höfða sem frumbyggjar kölluðu Shawmut. Mjótt eiði tengdi höfðann við meginlandið sem var umkringdur Massachusettsflóa og mýrlendinu við óseyrar árinnar Charles. Fyrstu evrópsku landnemar Boston kölluðu svæðið Trimountaine. Síðar var bærinn nefndur eftir Boston í Lincolnhéraði á Englandi en þaðan höfðu margir mikilsmetnir „pílagríma“-landnemar komið. Meirihluti fyrstu íbúa Boston var hreintrúarsinnaður. Fyrsti landstjóri nýlendunnar við Massachusettsflóa, John Winthrop, hélt fræga predikun sem hét „Borg uppi á hæð“, sem útskýrði hugmynd hans um sérstakan samning á milli Guðs og Boston. Winthrop skrifaði einnig undir svokallaðan Cambridge-sáttmála, sem er mikilvægt skjal sem markar stofnun borgarinnar. Siðareglur hreintrúarmanna mótuðu afar stöðugt og vel skipulagt samfélag í Boston. Svo dæmi sé tekið, stofnuðu hreintrúarsinnar fyrstu skóla Ameríku stuttu eftir landnám, Latínuskólann í Boston (1635) og háskólann Harvard (1636). Dugnaður, heiðarleiki og áhersla á nám eru enn í dag hluti af menningu Boston.

Snemma á sjöunda áratug 18. aldar reyndu Bretar að ná stjórn yfir nýlendunum þrettán, aðallega með skattlagningu. Þetta varð til þess að íbúar Boston hófu frelsisstríðið. Blóðbaðið í Boston, teboðið í Boston og önnur söguleg átök áttu sér stað í eða nálægt borginni, svo sem bardaginn um Lexington og Concord, bardaginn um Bunker Hill og umsátrið um Boston. Það var á þessu tímabili sem Paul Revere fór hina frægu miðnæturreið.

Eftir byltinguna varð Boston ein ríkasta hafnarborg veraldar — romm, fiskur, salt og tóbak voru þar helst á meðal útflutningsvara. Á þessum tíma var litið á gamalgrónar fjölskyldur í Boston sem yfirstétt í samfélaginu. Meðlimir yfirstéttarinnar voru síðar kallaðir Boston-brahmanarnir. Árið 1822 var Boston formlega stofnsett með lögum. Upp úr 1800 varð iðnaðarvarningur borgarinnar orðin mikilvægari fyrir efnahag hennar en alþjóðleg viðskipti. Þar til snemma á 20. öld var Boston á meðal stærstu framleiðsluborga landsins og þá sérstaklega eftirtektarverð fyrir framleiðslu á fötum, leðurvarningi og vélum. Frá miðri 19. öld til til ofanverðrar aldarinnar dafnaði menningin í Boston — borgin varð þekkt fyrir fágaða bókmenntamenningu og rausnarlegan stuðning við listirnar. Hún varð einnig miðstöð afnámssinna þrælahalds.

Á öðrum áratug 19. aldar breyttist þjóðernissamsetning Boston til muna; Írar og Ítalir fluttu til Boston í stórum stíl og með þeim kom rómversk-kaþólska kirkjan. Í dag eru kaþólikkar í meirihluta í Boston. Írar hafa spilað stórt hlutverk í stjórnmálum í Boston — meðal frægra Íra eru John F. Fitzgerald, Tip O'Neil og Kennedy-fjölskyldan.

Old State House var byggt á 18. öld umkringt nýrri byggingum frá 19. og 20. öldinni.

Á milli 1630 og 1890 þrefaldaðist stærð borgarinnar vegna landheimtu, þá sérstaklega með uppfyllingu í mýrar, leirur og skörð milli hafnarbakka. Þetta kallaði Walter Muir Whitehill „að skera niður hæðirnar til að fylla upp í voganna“. Stærstu framkvæmdirnar hófust 1807 þegar efri hluti Beacon Hill var notaður til að fylla upp í 20 hektara myllutjörn sem síðar varð Haymarket Square (suður af North Station svæðinu í dag). Stjórnarráð Massachusetts stendur nú á Beacon Hill. Frekari framkvæmdir bjuggu til landsvæði undir bæjarhlutana South End, West End, Financial District og Chinatown. Eftir eldsvoðann mikla í Boston 1872 var húsabrak notað sem uppfyllingarefni við höfnina í miðbænum. Landfyllingaraðgerðir við Back Bay voru líka stórfenglegar. Frá miðri til ofanverðar 19. aldar var fyllt upp í 2,4 km² af ísöltu votlendi vestur af Boston Common með jarðveg frá Needham Heights sem þangað var fluttur með járnbrautarlest. Þá samlagaðist Boston bæjarfélögum sínum East Boston, Dorchester, South Boston, Brighton, Allston, Hyde Park, Roxbury, West Roxbury, Jamaica Plain og Charlestown.

Snemma á 20. öld varð hnignun í efnahagslífi borgarinnar þar sem verksmiðjur voru úreltar og fyrirtæki fluttust á brott í leit að ódýrara vinnuafli. Til að svara þessari hnignun voru ýmis endurnýjunarverkefni sett í gang, til að mynda niðurrif á gamla West End svæðinu og bygging Government Center. Á sjöunda áratug 19. aldar var aftur blásið lífi í efnahagslífið eftir um 30 ára samdrátt. Borgin varð þá leiðandi í verðbréfasjóðsiðnaði. Þá hafði Boston þegar orðstír fyrir góða heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahús á borð við Massachusetts General Hospital, Beth Israel Deaconess Medical Center og Brigham and Women's Hospital voru leiðandi í heilbrigðismálum í landinu með nýbreytni og umhyggju sjúklinga. Háskólar eins og Harvard, MIT, Boston University og Boston College löðuðu marga nemendur til sín. Upp úr 1974 átti borgin í erfiðleikum vegna átaka út af þeirri aðskilnaðarstefnu sem neyddi lituð börn til að ganga í skóla utan síns hverfis. Mikil ólga og ofbeldi var í kringum opinbera skóla um miðjan sjöunda áratuginn vegna þessa og hún undirstrikaði þann strekking sem var á milli kynþátta í borginni.

Á síðustu áratugum hefur Boston glatað mörgum umdæmisstofnunum og hefðum sem eitt sinn einkenndu borgina. Boston er farin að draga dán af öðrum borgum við norðaustur ströndina sem nú eru kallaðar BosWash stórborgarsvæðið. Borgin stendur nú frammi fyrir vandamálum vegna þess að vel stætt fólk kaupir upp gömul hús og gerir upp sem veldur því að fátækara fólk hrökklast undan auk þess sem verðlag þar er afar hátt. Þrátt fyrir þetta er Boston aftur orðin miðstöð vitsmuna-, tækni- og stjórnmálahugmynda.

Museum of Fine Arts, stofnað árið 1870, er eitt stærsta safn Bandaríkjanna.

Menning Boston á margt sameginlegt með öðrum svæðum Nýja Englands. Þar á meðal má nefna hreiminn á norðurhluta Nýja Englands, þekktur sem Boston-enska og matreiðslu sem einkennist af sjávarréttum, salti og mjólkurvörum. Írsk-ættaðir Bandaríkjamenn hafa í gegnum tíðina haft sterk áhrif á Boston, einkum á stjórnmál og trúarstofnanir.

Boston er af mörgum talin hámenningarleg borg, ef til vill vegna góðs orðstírs hennar á sviði menntunar, en stór hluti menningarsögu borgarinnar á rætur að rekja til háskólanna. Borgina prýða mörg falleg leikhús á borð við Cutler Majestic Theatre, Boston Opera House, Citi Performing Arts Center, Colonial Theater og Orpheum Theatre. Nokkrar stórar listastofnanir starfa í Boston; þar á meðal Boston Symphony Orchestra, Boston Ballet, Boston Early Music Festival, Boston Lyric Opera Company, OperaBoston, og Handel and Haydn Society (ein elstu kórsamtök Bandaríkjanna).

Vegna mikilvægis borgarinnar í frelsisstríði Bandaríkjanna hafa nokkrir sögufægir staðir verið varðveittir frá þeim tíma. Marga þeirra er hægt að finna meðfram Freedom Trail, markaðri með línu af rauðum múrsteinum í gangstéttinni. Í borginni eru einnig nokkur virt söfn á borð við Museum of Fine Arts og Isabella Stewart Gardner Museum. John F. Kennedy-bókasafnið er til húsa í Massachusetts háskóla. Á meðal annarra athyglisverðra staða má nefna Boston Athenaeum (eitt elsta einkarekna bókasafn Bandaríkjanna), Boston Children's Museum, Bull & Finch Pub (þekkt sem sögusvið sjónvarpsþáttarins Cheers), Museum of Science, og New England Aquarium.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Hafnaboltaleikur með Boston Red Sox á Fenway Park árið 1989.

Eftirfarandi lið spila í Boston:

Félag Deild Íþrótt Leikvangur Stofnað Titlar
Boston Red Sox MLB Hafnabolti Fenway Park 1901 7 World Series Sigrar
New England Patriots NFL Amerískur fótbolti Gillette Stadium 1960 5 Super Bowl Sigrar
Boston Celtics NBA Körfubolti TD Garden 1946 17 NBA Titlar
Boston Bruins NHL Íshokkí TD Garden 1924 5 Stanley Bikarar
New England Revolution MLS Knattspyrna Gillette Stadium 1995 0 MLS Bikarar
Boston Cannons MLL Háfleikur Harvard Stadium 2001 0 MLL Titlar

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „QuickFacts – Boston, Massachusetts“. United States Census Bureau. Sótt 9. desember 2024.
  翻译: