Fara í innihald

Groningen (fylki)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Groningen
Flatarmál: 2.960,03 km²
Mannfjöldi: 582.640
Þéttleiki byggðar: 250/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Groningen er nyrsta fylki Hollands.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Groningen nær yfir norðvestasta svæði meginlands Hollands. Nokkrar af austustu eyjum Vesturfrísnesku eyjanna tilheyra fylkinu. Ein þeirra, Rottumerplaat, er nyrsti oddi Hollands. Önnur fylki sem að Groningen liggja eru Drenthe fyrir sunnan og Frísland fyrir vestan. Auk þess liggur Groningen að Þýskalandi fyrir austan. Fyrir norðan er Vaðhafið, sem er hluti Norðursjávar. Fylkið er mjög láglent og eru sum svæðin fyrir neðan sjávarmál. Hæsta hæðin nær aðeins 30 metra hæð. Íbúarnir eru 583 þúsund talsins. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Groningen.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Groningen er fjórskipt. Uppi til vinstri og niðri til hægri er svartur tvíhöfða örn. Örninn er bæði tákn þýska ríkisins, sem og borgarinnar Groningen. Innan í örnunum er hvít/grænt merki en það er borgarmerki Groningen. Uppi til hægri og niðri til vinstri er gamalt merki Ommelanden en þannig hét áður fyrr meginsvæði þess sem Groningen er í dag. Þetta er enn í dag fáni Fríslands. Ljónin sem skjaldberar og kórónan efst eru síðari tíma viðbætur. Skjaldarmerkið í núverandi mynd var tekið upp 1947.

Fáninn er líkur að formi og íslenski fáninn. Grænn kross innan um hvítan kross. Hornin eru ýmist blá eða rauð. Litirnir voru teknir úr fána borgarinnar Groningen og Ommelanden. Fáni þessi var opinberlega tekinn upp 1913.

Fylkið heitir eftir borginni Groningen. Gamli rithátturinn er Groeningen. Merkingin er óljós, en talið er að liturinn grænn sé stofn heitisins (groen eða gruen = grænn). Á mállýsku innfæddra er heitið Grunn, sem einnig merkir grænn. Nokkrar þjóðsögur eru til um heitið borgarinnar og eru þær allar í þá áttina að persóna að nafni Gruno hafi stofnað hana.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Groningen var í margar aldir hluti af þýska ríkinu. Þegar Niðurlönd hófu uppreisn gegn Spáni, stóð Groningen í fyrstu utan við. Árið 1594 gengu íbúar þó til liðs við Vilhjálm af Óraníu og börðust með honum gegn Spánverjum. Þegar Frakkar yfirgáfu Niðurlönd 1814 kom til tals að sameina Groningen Þýskalandi á ný. En íbúar vildu halda tengsl við Holland. Vínarfundurinn úrskurðaði því 1815 að Groningen skyldi tilheyra sameinuðum Niðurlöndum og varð það því að fullgildu fylki.

Groningen er eina teljandi borgin í fylkinu.

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Groningen 190 þúsund Höfuðborg fylkisins
2 Oldambt 39 þúsund
3 Hoogezand-Sappemeer 34 þúsund
4 Stadtskanaal 33 þúsund
5 Veendam 27 þúsund
6 Delfzijl 26 þúsund Nyrsta borg meginlands Hollands


  翻译: