Fara í innihald

Gullfótur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gullfótur er þegar að baki gjaldmiðils er gullforði þannig að sérhver peningaseðill eða mynt er í reynd ávísun á tiltekið magn af gulli.

Taka má dæmi af ríki sem á eitt tonn af gulli og gjaldmiðill þess, skildingar, er á gullfæti. Ef hver skildingur er ávísun á eitt gramm af gulli getur þetta ríki ekki gefið út meira en milljón skildinga, nema það eignist meira gull vegna þess að eitt tonn er jafnt og milljón grömm. Þetta hefur ýmsa kosti, til dæmis er loku fyrir það skotið að ríkið prenti endalaust af skildingum og valdi þannig mikilli verðbólgu, að minnsta kosti svo framarlega sem ríkið tekur gjaldmiðil sinn ekki af gullfætinum. Ef nágrannaríki þess hefur sinn gjaldmiðil einnig á gullfæti er auðvelt að reikna út gengi gjaldmiðlanna tveggja. Ef gert er ráð fyrir að í því ríki séu notaðir dalir og hver dalur sé ávísun á tvö grömm af gulli, þá er augljóst að hver dalur er tvöfalt meira virði en skildingur og gengið hlýtur að endurspegla það.

Áður fyrr var mjög algengt að gjaldmiðlar væru á gullfæti. Af ýmsum ástæðum hefur verið horfið frá því. Helsti kosturinn við gullfót er ósveigjanleikinn sem til dæmis kemur í veg fyrir óhóflega seðlaprentun. Þessi ósveigjanleiki er jafnframt einnig helsti gallinn við gullfót. Einnig er það galli að gull er í eðli sínu gagnslítill málmur, einna helst nytsamlegur í skrautmuni og erfitt að sjá hvers vegna verðmæti slíkra muna ætti að vera hornsteinn allrar efnahagsstarfsemi. Þá geta sveiflur í framboði á gulli, til dæmis þegar nýjar námur finnast, valdið óþarfa sveiflum í verðlagi.

Meðan gjaldmiðlar voru flestir á gullfæti voru mikilvægustu eignir seðlabanka gullforði. Það er liðin tíð þótt flestir seðlabankar eigi enn eitthvað af gulli. Nú er mikilvægasta eign Seðlabanka Íslands gjaldeyrisforði landsmanna, sem varðveittur er einkum sem erlend verðbréf og innstæður hjá erlendum bönkum og sjóðum. Í lok ársins 2001 átti Seðlabanki Íslands 61.558 únsur (1.915 kg eða tæp tvö tonn) af gulli sem metnar voru á 1.752 milljónir króna. Gullið er að mestu leigt út gegn gjaldi. Þetta er mjög lítill hluti af heildareignum bankans. Á sama tíma voru erlendar eignir hans um 37 milljarðar króna af 116 milljarða króna heildareignum og eigið fé var um 34 milljarðar króna.

Silfurfótur er hliðstæður gullfæti og margar aðrar tilraunir hafa verið gerðar með góðmálma og vörur sem undirstöðu gjaldmiðla. Nú tíðkast hins vegar að styðjast við gjaldmiðla sem byggja eingöngu á ákvörðun tiltekins ríkis um að þeir skuli vera gjaldgengir í því ríki. Það fyrirkomulag hefur verið kallað fótalaust fé (e. fiat money, alls óskylt samnefndum ítölskum bílaverksmiðjum). Fótalaust fé byggir eingöngu á trausti manna á þessu tiltekna ríki og stofnunum þess, sérstaklega seðlabanka. Einkum skiptir máli hvaða trú menn hafa á því að útgáfu á gjaldmiðlinum verði stillt í hóf. Síðasti gjaldmiðill sem verulegu máli skiptir fór endanlega af gullfæti 15. ágúst árið 1971 þegar Richard M. Nixon Bandaríkjaforseti lýsti því yfir að ríkið myndi ekki lengur skipta á gulli og dollurum.

Saga gullfótsins

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf gullfótsins

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1821 innleiddi Bretland gullfótinn í fyrsta sinn. Fyrir þetta hafði silfur verið megin peningamálmurinn í heiminum. Gullfótur varð formlega grundvöllur alþjóðlegs peningakerfis árið 1870 þegar Þýskaland, Frakkland og Bandaríkin komu kerfinu á fót. Ef lönd lentu í tímabundinni verðbólgu og urðu að hætta á gullfætinum tímabundið, þá bar þeim að koma aftur á fyrra gengi, jafnvel þó það kostaði verðhjöðnun og kreppu.[1] Dæmi um það var þegar bandaríkin fóru af gullfæti árið 1861 vegna þrælastríðsins, en komu aftur á fyrra gengi nokkru síðar eftir áratugs verðhjöðnun.[2]

Undir alþjóðlegum gullstaðli gullfótsins, var magn peninga í hverju landi ákvarðað með aðlögunarferli sem kallast gullflæðiskenningin um greiðslujöfnuð(en). Gullflæðiskenninginin um greiðslujöfnuð er sjálfvirkt flæði mynstur milli landa sem jafnar greiðsluhalla. Kenningin segir að þau lönd sem eru með jákvæðan viðskiptajöfnuð, eru að flytja inn gull í skiptum fyrir útflutning, en lönd með neikvæðan viðskiptajöfnuð flytja út gull í skiptum fyrir innflutning. Í löndum þar sem viðskiptajöfnuður er jákvæður, þá veldur aukning í gulli verðbólgu sem hækkar verð og gerir innflutning samkeppnishæfari. Í löndum þar sem viðskiptajöfnuður er neikvæður, þá veldur rýrnun á gulli verðhjöðnun sem lækkar verð og gerir útflutning samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi.[3]

Fyrri heimsstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Á nítjándu öld stöðvuðu stjórnvöld með ófullnægjandi skatttekjur ítrekað breytinguna á gullfótinn. Klassíski gullfóturinn var á hátindi sínum í lok árs 1913, en fyrri heimsstyrjöldin neyddi mörg lönd til að fresta því að fara á hann, eða yfirgefa hann. Vegna áhlaups á pundið settu Bretar gjaldeyrishöft, sem veikti staðalinn umtalsvert. Breytingin var ekki stöðvuð með lögum, en gullverð gegndi ekki lengur því hlutverki sem það gerði áður. Verð í Bandaríkjunum og Bretlandi tvöfaldaðist, þrefaldaðist í Frakklandi og fjórfaldaðist á Ítalíu. Jafnvel þó að evrópsk verðbólga hafi verið hærri en bandarísk verðbólga, þá sveiflaðist gengið minna. Fyrir vikið lækkaði kostnaður á bandarískum vörum í samanburði við kostnaðinn í Evrópu. Kerfið gat ekki brugðist nógu fljótt við þessum mikla viðskiptahalla og afgangi á greiðslujöfnuði. Þá var komið nýtt og breytt heimskerfi þar sem verð á vinnuafl var ekki hreyfanlegt, sem veldur því að markaðir hegða sér ekki eins og áður. Verðið náði ekki  jafnvægi þegar kreppan mikla varð, sem varð til þess að kerfið lamaðist algjörlega.[4]

Árið 1928 hafði gullfóturinn hins vegar nánast verið endurreistur, þó að flest lönd hafi tekið upp gullskiptastaðal, sem bætti við gullforða seðlabanka sinna með gjaldmiðlum sem hægt var að breyta í gull á stöðugu gengi vegna hlutfallslegs skorts á gulli.[4]

Seinni heimsstyrjöldin

[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem gjaldmiðlar annarra landa voru fastir miðað við dollara, var hlutverk gulls mjög takmarkað. Mörg lönd héldu gullforða og notuðu gull til að gera upp reikninga. Þá vildu þeir gera upp skuldir í öðrum gjaldmiðlum, þar sem Bandaríkjadalur var eftirsóknaverðastur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður til að aðstoða við gengisferlið og aðstoða lönd við að viðhalda föstu gengi. Þrátt fyrir að flest lönd hafi skilgreint gjaldmiðla sína í dollurum, settu sum lönd viðskiptahömlur til að vernda forða sinn og gengi. Þar af leiðandi voru gjaldmiðlar flestra landa í meginatriðum óbreytanlegir. Gjaldeyrishöftunum var aflétt í kringum árið 1950, og gull varð þá verulegur hluti af alþjóðlegum fjármálauppgjörum.[5]

Bretton Woods kerfið og hrun gullfótsins

[breyta | breyta frumkóða]

Bretton Woods kerfið

[breyta | breyta frumkóða]

Gullfætinum var viðhaldið samkvæmt Bretton Woods, alþjóðlega peningamálasamningnum sem var settur árið 1944. Upphaflega var hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vera eftirlitsaðili með Bretton Woods fastgengiskerfinu sem komið var á eftir fundinn í Bretton Woods. Allir gjaldmiðlar aðildarríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru með fast gengi gagnvart bandaríkjadal, samkvæmt því kerfi sem var þá tryggt með gullfót. Breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes og bandaríkjamaðurinn Harry Dexter White, voru helstu arkitektar Bretton Woods-kerfisins. Keynes lagði til að stofnaður yrði alþjóðlegur seðlabanki til að hafa umsjón með nýja kerfinu, sem hefði þá heimild til að prenta seðla.[6]

Endir gullfótssins

[breyta | breyta frumkóða]

Bretton Woods samkomulagið endaði árið 1971 vegna hagsmuna árekstra stórþjóðana. Upp úr 1970 varð neikvæður viðskiptajöfnuður í Bandaríkjunum sem var þá í fyrsta skipti á tuttugustu öldinni. Fjárfestar byrjuðu þá að missa trú á bandarísk stjórnvöld sem leiddi til gríðarlegrar fjármálakreppu í landinu. Einnig voru þær skuldbindingar sem Bandaríkin gerðu árið 1944 (Bretton Woods) ekki að standast. Undir stjórn Charles de Gaulle sem var Frakklandsforseti fram til ársins 1970, þá minnkaði Frakkland gjaldeyrisforðan sinn í dollurum og skipti þeim fyrir gull við Bandaríkin. Það dró þá úr efnahagslegum áhrifum að utan. Evrópskir seðlabankar fóru að innleysa dollara tengd hlutabréf og fengu greitt í gulli sem dróg úr verðbólgu í Bandaríkjunum. Í fyrsta skipti í sögunni varð dollarinn að sjálfstæðum gjaldmiðli, án tengingar við gull. Þessi ákvörðun var staðfest á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary Fund) sem fór fram í Jamaíku árið 1973. Þessi breyting varð til þess að alþjóðlega peningakerfið byggðist á flotgengi.[7]

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=59241

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Morrison, James Ashley (2016/ed). „Shocking Intellectual Austerity: The Role of Ideas in the Demise of the Gold Standard in Britain“. International Organization (enska). 70 (1): 175–207. doi:10.1017/S0020818315000314. ISSN 0020-8183.
  2. „Gold Standard“. Corporate Finance Institute (bandarísk enska). Sótt 29. október 2021.
  3. Boateng, Kwabena; Hendrickson, Joshua R. (14. janúar 2021). „How Did the Gold Standard Really Work? A Comparison of the Price-Specie-Flow Mechanism and the Monetary Approach to the Balance of Payments“ (enska). Rochester, NY.
  4. 4,0 4,1 „International triumph of the gold standard: 1871 - 1914 - Baripedia“. baripedia.org. Sótt 29. október 2021.
  5. „Gold Standard“. eh.net. Sótt 29. október 2021.
  6. „Bretton Woods Agreement and System: An Overview“. Investopedia (enska). Sótt 29. október 2021.
  7. „Gold standard“, Wikipedia (enska), 26. október 2021, sótt 29. október 2021
  翻译: