Fara í innihald

Norður-Írland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norður-Írland
Northern Ireland (enska)
Tuaisceart Éireann (írska)
Norlin Airlann (ulsterskoska)
Fáni Norður-Írlands Skjaldarmerki Norður-Írlands
Fáni Skjaldarmerki
Staðsetning Norður-Írlands
Höfuðborg Belfast
Opinbert tungumál enska, írska og ulsterskoska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Forsætisráðherra Michelle O'Neill
Hluti Bretlands
 • Lög um ríkisstjórn Írlands 3. maí 1921 
 • Stjórnarskrárlög 18. júlí 1973 
 • Lög um Norður-Írland 17. júlí 1974 
 • Lög um Norður-Írland 19. nóvember 1998 
Flatarmál
 • Samtals

14.130 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar

1.903.100
133/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 49 millj. dala
 • Á mann 26.000 dalir
VÞL (2019) 0.899
Gjaldmiðill sterlingspund
Tímabelti UTC (UTC+1 á sumrin)
Þjóðarlén .uk
Landsnúmer +44

Norður-Írland er eitt af fjórum löndum sem mynda Bretland. Það er á Norðaustur-Írlandi og á landamæri að Írska lýðveldinu í suðvestri. Íbúar Norður-Írlands eru um 1,8 milljónir, sem er þriðjungur allra íbúa Írlands og um 3% íbúa Bretlands. Þing Norður-Írlands var stofnað í kjölfar Föstudagssáttmálans 1998 og tekur ákvarðanir í mörgum stefnumálum þótt mest völd séu hjá ríkisstjórn Bretlands. Norður-Írland hefur samstarf við Írska lýðveldið í ýmsum málum og hefur það hlutverk að setja fram stefnu til að draga úr ágreiningi milli stjórna landanna.

Norður-Írland varð til árið 1921 þegar Írlandi var skipt með lögum frá breska þinginu þar sem meirihluti íbúa norðurhlutans voru fylgjandi sameiningu við Bretland. Flestir þeirra voru mótmælendatrúar og afkomendur innflytjenda frá Stóra-Bretlandi. Árið eftir var Írska fríríkið stofnað í suðurhlutanum. Á Norður-Írlandi er þó stór minnihluti kaþólskra íbúa sem líta á sig sem Íra fremur en Breta. Saga Norður-Írlands hefur mótast af átökum milli þessara hópa. Seint á 7. áratug 20. aldar hófst átakatími sem stóð í þrjá áratugi. Friðarferli náði hátindi sínum með Föstudagssáttmálanum 1998 þótt aðskilnaður og tortryggni milli hópa séu enn vandamál.

Norður-Írland var sögulega iðnvæddasti hluti eyjarinnar. Eftir hnignunarskeið vegna átakanna hefur atvinnulíf tekið við sér frá því seint á 10. áratugnum vegna aukinna viðskipta við Írska lýðveldið og aukningu ferðaþjónustu. Atvinnuleysi á Norður-Írlandi náði hámarki 1986 þegar það var yfir 17%. Það er nú svipað og annars staðar í Bretlandi.

Frægir Norður-Írar eru meðal annars Van Morrison, Rory McIlroy, Joey Dunlop og George Best. Sumir Norður-Írar, eins og Seamus Heaney og Liam Neeson, líta fyrst og fremst á sig sem Íra. Menningarleg tengsl við bæði Írska lýðveldið og Bretland eru margþætt og flókin. Í íþróttum sendir Írland stundum eitt sameiginlegt lið og á Ólympíuleikunum geta Norður-Írar valið hvort þeir keppa fyrir Írska lýðveldið eða Bretland. Í Samveldisleikunum sendir Norður-Írland sérstakt lið.

Nafnið Norður-Írland varð til þegar lög um stjórn Írlands voru samþykkt á breska þinginu árið 1920. Með lögunum urðu til tvö heimastjórnarsvæði á Írlandi, Norður-Írland og Suður-Írland, hvort með sitt þing. Ástæðan var sú að írskir sambandssinnar í Ulster óttuðust að þing í Dublin hefði sjálfstæðissinna í meirihluta sem myndu kljúfa Írland frá Bretlandi. Norður-Írland náði aðeins yfir sex af níu sýslum Ulster þar sem sambandssinnar töldu sig ekki hafa öruggan meirihluta í öllum sýslunum níu.

Eftir samþykkt laganna kom þing Norður-Írlands saman, en þing Suður-Írlands var hunsað af sjálfstæðissinnum í Sinn Féin sem höfðu mikinn meirihluta og varð því aldrei að veruleika. Þeir stofnuðu síðan Írska fríríkið eftir friðarsamninga við Bretland. Samningarnir fólu í sér að þing Norður-Írlands mætti kjósa að segja sig úr fríríkinu, sem það gerði.

Landsvæðið sem er nú Norður-Írland var lengi byggt innfæddum Gelum sem töluðu írsku og voru flestir kaþólskrar trúar.[1] Nokkur gelísk konungsríki komu upp þar sem var kallað Ulster. Árið 1169 gerðu Normannar innrás í Írland og lögðu megnið af eyjunni undir ensku krúnuna. Þar með hófust 800 ár af erlendum yfirráðum. Andspyrna íbúa var barin á bak aftur alls staðar nema í Ulster. Þar hélt gelískt ríki áfram völdum, en yfirráð Englendinga voru bundin við lítið svæði á austurströndinni. Eftir innrásina hnignaði stjórn Englendinga á Írlandi nær alls staðar nema í Dublin og nágrenni. Þegar Hinrik 8. hóf endurheimt Írlands á 16. öld veitti Ulster harðasta mótspyrnu. Í níu ára stríðinu leiddu voldugustu aðalsmenn Ulster, Hugh Roe O'Donnell og jarlinn af Tyrone, uppreisn gegn stjórninni í Dublin. Þetta var fyrsta bandalag Íra gegn erlendum yfirráðum. Áður hafði mótspyrna verið staðbundin. Þrátt fyrir bandalag við Spán og nokkra sigra til að byrja með, var ósigur bandalagsins nær tryggður eftir sigur Englendinga í umsátrinu um Kinsale. Leiðtogar uppreisnarinnar flúðu til meginlandsins ásamt stórum hluta aðalsins í Ulster. Lönd þeirra voru gerð upptæk af ensku krúnunni og Ulster-plantekran byggð enskumælandi mótmælendum. Margir bæir í Ulster rekja uppruna sinn til þessara atburða sem urðu til þess að til varð stórt samfélag mótmælenda í Ulster, með sterk tengsl við Stóra-Bretland. Írska uppreisnin 1641 hófst í Ulster. Uppreisnarmenn vildu binda enda á mismunun gegn kaþólskum íbúum. Uppreisnin var hluti af þríríkjastríðunum (1639-1653), sem lauk með innrás Cromwells í Írland. Mótmælendur unnu frekari sigra í stríði Vilhjálmsmanna á Írlandi (1688-1691) sem tryggði yfirráð ensku biskupakirkjunnar í konungsríkinu Írlandi. Sigrum Vilhjálmsmanna í umsátrinu um Derry 1689 og orrustunni um Boyne 1690 er enn fagnað af sumum mótmælendum á Norður-Írlandi.[2] Margir skoskir mótmælendur fluttust til Ulster í skosku hungursneyðinni undir lok 17. aldar.

Eftir sigur Vilhjálmsmanna, og í andstöðu við friðarsamninginn í Limerick 1691, samþykkti yfirstétt mótmælenda í landinu röð nýrra laga gegn kaþólskum íbúum, og í minna mæli gegn meðlimum öldungakirkjunnar. Um 250.000 öldungakirkjumeðlimir fluttu frá Ulster til nýlenda Bresku Ameríku á milli 1717 og 1775.[3] Talið er að yfir 27 milljón skosk-írskir Bandaríkjamenn búi í Bandaríkjunum[4] auk skosk-írskra Kanadabúa í Kanada. Vegna þessarar mismununar urðu til róttæk leynifélög í Ulster og spenna jókst milli ólíkra trúarhópa undir lok 18. aldar. Við lok aldarinnar brutust út átök milli Peep o' Day Boys (sem voru mótmælendur) og Defenders (sem voru kaþólskir). Þeir atburðir leiddu til stofnunar Óraníureglunnar. Félag sameinaðra Íra, sem var bandalag írska lýðveldissinna og öldungakirkjumanna frá Belfast, gerðu byltingu 1798 undir áhrifum frá frönsku byltingunni. Breska ríkisstjórnin brást við með því að reyna að sameina konungsríkin tvö, en það fól í sér að binda enda á lagalega mismunun jafnframt því að stöðva framgang lýðveldissinna. Sameinað konungsríki Stóra-Bretlands og Írlands var stofnað árið 1801 með stjórn í London. Á 19. öld voru gerðar lagalegar umbætur sem afléttu hömlum á kaþólskum íbúum. Leiguliðar gátu þá keypt jarðir af landeigendum.

Heimastjórnarkreppan

[breyta | breyta frumkóða]
Ulster-sáttmálinn undirritaður gegn heimastjórn.

Við lok 19. aldar hafði stór og vel skipulagður hópur þjóðernissinnaðra írskra þingmanna í Westminster fengið Frjálslynda flokkinn til að styðja heimastjórn á Írlandi, innan Bretlands. Írskir sambandssinnar, sem flestir voru mótmælendur, börðust hatrammlega gegn þessum hugmyndum því þeir óttuðust að kaþólikkar og írskir þjóðernissinnar ættu öruggan meirihluta í slíkri heimastjórn. Lög um stjórn Írlands 1886 og Lög um stjórn Írlands 1893 voru felld á breska þinginu, en heimastjórn varð nær örugg þegar Lög um stjórn Írlands 1914 voru lögð fram. Ríkisstjórn frjálslyndra reiddi sig á stuðning írskra þjóðernissinna, og Bresku þingskaparlögin 1911 komu í veg fyrir að breska lávarðadeildin gæti stöðvað lögin til frambúðar.[5]

Viðbrögð sambandssinna voru að sverja þess eið að koma í veg fyrir heimastjórn. Þannig hófst heimastjórnarkreppan. Í september 1912 komu yfir 500.000 sambandssinnar saman og undirrituðu Ulster-sáttmálann um að vinna gegn heimastjórn með öllum tiltækum ráðum og standa í vegi hvers kyns írskrar stjórnar.[6] Árið 1914 smygluðu sambandssinnar miklu magni af rifflum og skotfærum frá Þýskalandi handa Ulster-sjálfboðaliðunum, sem voru skæruliðasamtök stofnuð heimastjórninni til höfuðs. Írskir þjóðernissinnar mynduðu sín eigin skæruliðasamtök, Írsku sjálfboðaliðana, og smygluðu líka vopnum til Írlands nokkrum mánuðum síðar.[7] Írland virtist vera á barmi borgarastyrjaldar.[8]

Sambandssinnar voru í minnihluta á öllu Írlandi, en höfðu meirihluta í Ulster, sérstaklega sýslunum Antrim, Down, Armagh og Londonderry.[9] Þeir komust að þeirri niðurstöðu að ef ekki væri hægt að koma í veg fyrir heimastjórn, ætti Ulster að vera undanþegið henni.[10] Í maí 1914 lagði breska ríkisstjórnin fram aukalög svo Ulster gæti verið undanþegið heimastjórn. Eftir það hófust deilur um hversu stór hluti Ulster ætti að vera undanþeginn og hversu lengi. Sumir sambandssinnar gátu sætt sig við að „missa“ landsvæði héraðsins þar sem kaþólskir voru í miklum meirihluta.[11] Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út varð hlé á þessum deilum. Breska ríkisstjórnin lagði aukalögin til hliðar og ýtti þess í stað í gegn nýjum lögum til að fresta gildistöku heimastjórnarlaganna meðan stríðið varði.[12] Undanþágan fyrir Ulster var enn óákveðin.[13]

Niðurstöður þingkosninga á Írlandi 1918.

Undir lok heimsstyrjaldarinnar (þar sem Páskauppreisnin hafði farið fram) vildu flestir írskir þjóðernissinnar fullt sjálfstæði fremur en heimastjórn. Í september 1919 kallaði breski forsætisráðherrann, David Lloyd George, saman nefnd til að undirbúa ný heimastjórnarlög. Nefndin var undir stjórn sambandssinnans Walter Long og varð þekkt sem „langa nefndin“. Nefndin ákvað að stofna tvær heimastjórnir, eina fyrir níu sýslur Ulster og aðra fyrir afganginn af Írlandi, ásamt Írlandsráði til að hvetja til einingar Írlands.[14] Flestir sambandssinnar í Ulster vildu að yfirráðasvæði Ulster-stjórnarinnar næði aðeins yfir sex sýslur til að tryggja meirihluta mótmælenda. Antrim-sýsla, Down-sýsla, Armagh-sýsla, Londonderry-sýsla, Tyrone-sýsla og Fermanagh-sýsla voru þær einu sem þeir töldu sig hafa tryggan meirihluta í samanlagt.[15] Landsvæðið sem varð Norður-Írland náði yfir sýslurnar Fermanagh og Tyrone, jafnvel þótt meirihluti íbúa þar hefðu kosið þjóðernissinna í kosningunum 1918.[16]

Hlutirnir þróuðust ekki eins og ríkisstjórnin sá fyrir sér. Í þingkosningunum 1918 vann flokkur sjálfstæðissinna, Sinn Féin, yfirgnæfandi meirihluta þingsæta. Þingmenn Sinn Féin hunsuðu breska þingið og mynduðu sitt eigið þing (Dáil Éireann). Þeir lýstu yfir stofnun sjálfstæðs lýðveldis sem næði yfir alla eyjuna. Margir írskir lýðveldissinnar kenndu Bretum um flokkadrættina innanlands og töldu að sambandssinnar í Ulster myndu mildast í afstöðu sinni um leið og endir yrði bundinn á bresk yfirráð.[17] Bresk yfirvöld lýstu Dáil-þingið ólöglegt í september 1919[18] og í kjölfarið hófst skæruhernaður írska lýðveldishersins gegn breska hernum. Þessi átök urðu þekkt sem sjálfstæðisstríð Írlands.[19]

Almenningur í Belfast fagnar opnun þings Norður-Írlands 22. júní 1921.

Lög um stjórn Írlands 1920 voru samþykkt af breska þinginu. Þau skiptu Írlandi í tvö heimastjórnarsvæði innan Bretlands: sex sýslur í norðausturhluta landsins (Norður-Írland) með stjórnarsetur í Belfast, og hinar 26 sýslur Írlands (Suður-Írland) með stjórnarsetur í Dublin. Einn landstjóri Írlands átti að skipa báðar stjórnirnar og Írlandsráð, sem breska stjórnin sá fyrir sér að myndi þróast í eina stjórn og eitt þing yfir öllu Írlandi.[20] Konungur undirritaði lögin í desember og þau tóku gildi 3. maí 1921.[21][22] Þingkosningar voru haldnar 24. maí þar sem sambandssinnar náðu meirihluta þingsæta á þingi Norður-Írlands. Þingið kom fyrst saman 7. júní og kaus sér sína fyrstu ríkisstjórn undir stjórn Sambandsflokks Ulster og formanns hans, James Craig. Þingmenn úr flokkum írskra þjóðernissinna neituðu að taka þátt. Georg 5. konungur ávarpaði þingið þegar það kom saman 22. júní.[21]

Á árunum 1920 til 1922 réðist Írski lýðveldisherinn gegn breskum hersveitum, en var annars minna virkur þar en annars staðar á Írlandi. Mótmælendur réðust gegn kaþólskum íbúum í hefndarskyni fyrir árásir lýðveldishersins og sumarið 1920 voru mörg hús kaþólskra íbúa brennd í Lisburn og Banbridge.[17] Átökin stóðu með hléum í tvö ár, aðallega í Belfast þar sem ofbeldisverk margfölduðust, þar á meðal uppþot, skotbardagar og sprengjuárásir. Heimili, vinnustaðir og kirkjur urðu skotmörk árása og fólk var hrakið frá vinnustöðum og úr blönduðum hverfum.[17] Yfir 500 létu lífið[17] og yfir 10.000 hröktust af heimilum sínum, flestir kaþólskir.[17] Breski herinn beitti sér í átökunum og Ulster-sérsveitin var stofnuð til að aðstoða lögregluna. Sérsveitin var nær alfarið skipuð mótmælendum og meðlimir hennar auk lögreglunnar tóku þátt í hefndaraðgerðum gegn kaþólskum borgurum.[23] Vopnahlé milli breska hersins og lýðveldishersins var samþykkt 11. júlí 1921. Þar með lauk bardögum í stærstum hluta Írlands, en samfélagsátök héldu áfram í Belfast. Árið 1922 hóf lýðveldisherinn skæruhernað á írsku landamærunum.[24]

Samningur Bretlands og Írlands var undirritaður af fulltrúum ríkisstjórna Bretlands og Írska lýðveldisins þann 6. desember 1921. Þar með var Írska fríríkið stofnað. Samkvæmt skilmálum samningins varð Norður-Írland hluti af fríríkinu nema stjórn þess kysi að segja sig frá því með ávarpi til konungs, þótt skiptingin væri áfram í gildi í reynd.[25]

Skjaldarmerki Norður-Írlands frá 1924 til 1973.

Eins og við var búist, ákvað þing Norður-Írlands þann 7. desember 1922 (daginn eftir stofnun Írska fríríkisins) að nýta sér rétt sinn til að segja sig undan yfirráðum fríríkisins með ávarpi til Georgs 5.[26] þar sem óskað var eftir því að yfirráð ríkisstjórnar fríríkisins næðu ekki yfir Norður-Írland.[27][28] Skömmu eftir það var Írska landamæranefndin stofnuð til að ákvarða landamæri milli Írska fríríkisins og Norður-Írlands. Vegna þess að írska borgarastyrjöldin braust út var vinnu nefndarinnar frestað til 1925. Stjórn Fríríkisins og írskir þjóðernissinnar vonuðust til þess að stórt landsvæði yrði flutt til fríríkisins, af því í mörgum landamærahéruðum voru þjóðernissinnar í meirihluta. Margir töldu að með þessu yrði land Norður-Írlands of lítið til að ríkið stæði undir sér.[29] Lokaskýrsla nefndarinnar mælti hins vegar aðeins með lítilsháttar tilflutningi, og í báðar áttir. Stjórnir Fríríkisins, Norður-Írlands og Bretlands samþykktu þá að hafna skýrslunni og samþykkja orðinn hlut, og breska ríkisstjórnin samþykkti á móti að Fríríkið væri laust undan opinberum skuldum Bretlands.[30]

James Craig (í miðið) ásamt fyrstu ríkisstjórn Norður-Írlands.
Opnun írska þinghússins í Stormont árið 1932.

Landamæri Norður-Írlands miðuðust við að skapa afgerandi meirihluta mótmælenda. Þegar landið var stofnað voru tveir þriðju íbúa Norður-Írlands mótmælendur, en einn þriðji var kaþólskur.[31] Flestir mótmælendur voru sambandssinnar sem vildu að Norður-Írland yrði áfram hluti af Bretlandi, meðan flestir kaþólikkar voru þjóðernissinnar eða lýðveldissinnar sem vildu sjálfstætt og sameinað Írland. Á Norður-Írlandi átti sér stað aðskilnaður milli mótmælenda og kaþólikka á sviðum menntunar, búsetu og atvinnu.[32]

Fyrstu fimmtíu árin hélt Sambandsflokkur Ulster um stjórnartaumana.[33] Hver einasti forsætisráðherra í þessum ríkisstjórnum var meðlimur í Óraníureglunni, líkt og allir nema 11 af 149 þingmönnum flokksins á þeim tíma.[34] Nær allir dómarar landsins voru mótmælendur og margir þeirra tengdust Sambandsflokknum nánum böndum. Ulster-lögreglan tók við af Írsku lögreglunni sem löggæslulið landsins. Nær allir lögreglumennirnir voru sömuleiðis mótmælendur og tóku við skipunum frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ulster-lögreglan og Ulster-sérsveitin voru vopnuð lögreglulið vegna meintrar ógnar frá lýðveldissinnum. Með Lögum um sérstök völd yfirvalda á Norður-Írlandi fékk lögreglan víðtækt umboð til handtöku án dómsúrskurða og fangelsun án réttarhalda, og ótakmörkuð völd til að framkvæma húsleitir og banna fundi og útgáfu.[35]

Flokkur þjóðernissinna var helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Kjörnir meðlimir hans mótmæltu oft með því að hafna sæti á norðurírska þinginu og margir þjóðernissinnar sniðgengu þingkosningar.[32] Aðrir hópar sem börðust gegn skiptingunni voru Þjóðfylking norðursins (frá 1928), Norræna sameiningarráðið (frá 1937) og Írska bandalagið á móti skiptingunni (frá 1945).[36]

Ríkisstjórnir og sveitarstjórnir Sambandsflokksins beittu kaþólska íbúa og írska þjóðernissinna markvissri og kerfisbundinni mismunun, sérstaklega með kjördæmahagræðingu, úthlutun félagslegs húsnæðis, opinberum ráðningum og löggæslu.[37] Áratugum síðar viðurkenndi fyrsti ráðherra Sambandsflokksins, David Trimble, að undir stjórn flokksins hefði Norður-Írland verið „kalt hús“ fyrir kaþólikka.[38]

Í síðari heimsstyrjöld gekk liðssöfnun fyrir breska herinn mun verr en í þeirri fyrri. Í júní 1940 gaf Winston Churchill taoiseach Írska lýðveldisins Éamon de Valera von um að breska stjórnin myndi styðja sameiningu Írlands til að fá Íra til að ganga af hlutleysisstefnu sinni, en de Valera trúði honum ekki og hafnaði tilboðinu.[39] Bretar létu stjórn Norður-Írlands ekki vita af tilboðinu sem komst ekki í hámæli fyrr en 1970. Belfast var ein af helstu iðnaðarborgum Bretlands í stríðinu, og framleiddi skip, flugvélar og skotfæri. Langvarandi atvinnuleysi sem hafði ríkt þar frá 4. áratugnum hvarf og þess í stað varð skortur á vinnuafli sem hvatti til fólksflutninga frá fríríkinu. Borgin var illa varin þar sem Bretar töldu hana nógu langt frá Þýskalandi. Slökkviliðið var of lítið og stjórn Norður-Írlands hafði tregðast við að reisa loftvarnarbyrgi. Bygging á slíkum byrgjum hófst eftir loftárásirnar á London haustið 1940. Í apríl-maí árið eftir hóf Luftwaffe loftárásirnar á Belfast sem urðu þær mannskæðustu utan London. Verkamannahverfi í norður- og austurhluta borgarinnar urðu sérstaklega illa úti og yfir 1000 létu lífið. Tugir þúsunda flúðu borgina af ótta við frekari árásir. Í lokaárásinni tókst þýskum sprengjuflugvélum að vinna mikið tjón á höfninni og skipasmíðastöð Harland & Wolff var lokað í hálft ár. Helmingurinn af byggingum borgarinnar var eyðilagður og tjónið var metið á um 20 milljónir punda. Stjórn Norður-Írlands var harðlega gagnrýnd fyrir skort á viðbúnaði og forsætisráðherrann, J. M. Andrews, sagði af sér. Árið 1944 varð stórt verkfall verkamanna í skotfæraframleiðslu.[40]

Írlandslögin 1949 settu fram fyrstu lagalegu trygginguna fyrir því að landið myndi ekki hætta að vera hluti Bretlands án samþykkis þings Norður-Írlands. Á milli 1956 og 1962 stóð Írski lýðveldisherinn fyrir skæruhernaði á landamærasvæðum Norður-Írlands sem nefndist Landamærahernaðurinn. Tilgangurinn var að grafa undan stjórn Norður-Írlands til að binda enda á skiptingu landsins.[41] Árið 1965 hittust forsætisráðherra Norður-Írlands, Terence O'Neill og taoiseach lýðveldisins, Seán Lemass. Þetta var fyrsti fundur stjórnarleiðtoga landanna frá skiptingu.[42]

Átökin á Norður-Írlandi hófust seint á 7. áratug 20. aldar. Þá tóku við um 30 ár af ofbeldisverkum þar sem 3.254 voru myrt,[43] og yfir 50.000 féllu eða særðust.[44] Frá 1969 til 2003 áttu sér stað yfir 36.900 skotárásir og yfir 16.200 sprengjuárásir eða tilraunir til sprengjuárása í tengslum við átökin.[45] Orsakir átakanna voru deilur um stöðu Norður-Írlands innan Bretlands og mismunun gagnvart minnihluta írskra þjóðernissinna af hálfu sambandssinna.[46] Frá 1967 til 1972 leiddu Samtök um borgararéttindi á Norður-Írlandi (Northern Ireland Civil Rights Association - NICRA), sem hafði hliðstæðar baráttuhreyfingar í Bandaríkjunum að fyrirmynd, baráttu gegn mismunun gegn kaþólikkum í tengslum við búsetu, atvinnu, löggæslu og kosningarétt. Aðeins menn sem greiddu skatt til sveitarstjórna og eiginkonur þeirra höfðu kosningarétt, sem útilokaði um fjórðung íbúa. Þótt meirihluti þess hóps hafi verið mótmælendur voru kaþólikkar hlutfallslega fleiri en nam hlutfalli þeirra af íbúafjölda þar sem þeir voru fátækari og bjuggu á heimilum með fleiri fullorðnum.[47] Kjördæmum var líka markvisst skipt þannig að meirihluti mótmælenda var alltaf tryggður.[48]

Hverjir báru ábyrgð á dauðsföllum vegna átakanna milli 1969 og 2001.

Margir sambandssinnar litu á baráttu NICRA sem skálkaskjól fyrir írska lýðveldissinna og harkaleg viðbrögð þeirra leiddu til tímabils aukins ofbeldis.[49] Árið 1969 hófst vopnuð barátta ýmissa skæruliðahópa, þar á meðal Bráðabirgða írska lýðveldishersins sem reyndi að binda enda á stjórn Breta yfir Norður-Írlandi og stuðla að stofnun sameinaðs Írlands, og Ulster-sjálfboðaliðanna sem voru stofnaðir 1969 til að bregðast við minnkandi áhrifum sambandssinna. Öryggissveitir ríkisins, breska hersins og Ulster-lögreglunnar, tóku líka þátt í ofbeldisverkum. Ríkisstjórn Bretlands tók þá afstöðu að sveitir hennar væru hlutlausar í átökunum og reyndu að viðhalda lögum og reglu á Norður-Írlandi og standa vörð um lýðræðislegan sjálfsákvörðunarrétt íbúanna. Lýðveldissinnar litu hins vegar á opinberar öryggissveitir sem andstæðinga í átökunum og bentu í því sambandi á samvinnu þeirra við vopnaðar sveitir sambandssinna. Rannsókn umboðsmanns lögreglu á Norður-Írlandi hefur staðfest að breski herinn, og sérstaklega lögreglusveitir, hafi átt í samstarfi við sambandssinna, tekið þátt í morðum og reynt að hindra rannsókn á þeim.[50] Hvert umfang samstarfsins var er samt umdeilt.

Pólitísk áhrif versnandi ástands voru þau að héraðsstjórn Norður-Írlands var lögð af árið 1972. Meðfram ofbeldisverkunum varð pólitískt þrátefli milli helstu stjórnmálaflokka Norður-Írlands, líka þeirra sem fordæmdu ofbeldið, yfir spurningunni um framtíð stöðu landsins og hvaða stjórnarform ætti að taka upp. Árið 1973 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um spurninguna um áframhaldandi veru innan Bretlands eða sameinað Írland. Næstum 99% kusu með áframhaldandi veru innan Bretlands og um 58% kjósenda tóku þátt, en aðeins 1% kaþólikka kusu af því Sósíaldemókratíski verkamannaflokkurinn hvatti fólk til að sniðganga kosningarnar.[51]

Friðarferlið og Brexit

[breyta | breyta frumkóða]

Átökunum á Norður-Írlandi lauk með friðarferli sem fólst í því að lýsa yfir vopnahléi af hálfu flestra vopnaðra hópa og að þeir legðu niður öll vopn sín, umbætur ættu sér stað innan lögreglunnar og breskir hermenn hyrfu af götum og landamærasvæðum eins og Suður-Armagh og Fermanagh. Þetta kom fram í samkomulagi sem undirritað var í Belfast og hefur verið nefnt Föstudagssáttmálinn (Good Friday Agreement). Í sáttmálanum var staðfest sú afstaða bresku stjórnarinnar, sem engin írsk ríkisstjórn hafði að fullu viðurkennt, að Norður-Írland yrði hluti af Bretlandi þar til meirihluti kjósenda þar ákveddi annað. Stjórnarskrá Írlands var breytt árið 1999 þannig að tilkall „írsku þjóðarinnar“ til yfirráða yfir allri eyjunni var tekið út í grein 2.[52]

Ian Paisley (DUP) fyrsti ráðherra í miðið, og Martin McGuinness (Sinn Féin) fyrsti ráðherra til vara til vinstri, og Alex Salmond fyrsti ráðherra Skotlands til hægri, árið 2008.

Nýjum greinum 2 og 3 var bætt við stjórnarskrá Írlands þar sem viðurkenning Norður-Írlands var undirskilin, og að samband þess við Bretland og Lýðveldið Írland myndu aðeins breytast með samþykki meirihluta kjósenda í hverju lögsagnarumdæmi. Þetta var líka grundvallaratriði í Belfast-samkomulaginu sem var undirritað 1998 og staðfest með þjóðaratkvæðagreiðslum á Norður-Írlandi og í lýðveldinu. Á sama tíma viðurkenndi breska ríkisstjórnin í fyrsta skipti, „írsku hliðina“ svokölluðu: þá grundvallarreglu að íbúar eyjunnar Írlands í heild hafi rétt til þess, án utanaðkomandi afskipta, að leysa úr deilum milli norðurs og suðurs með samkomulagi.[53] Þetta var lykillinn að því að afla samkomulaginu stuðnings þjóðernissinna. Um leið var stofnað til samstjórnar þings Norður-Írlands, í Stormont-höll, þar sem bæði flokkar sambandssinna og þjóðernissinna ættu aðild. Breska ríkisstjórnin lagði þessar stofnanir niður árið 2002 eftir ásakanir lögreglunnar á Norður-Írlandi um njósnir Írska lýðveldishersins um fólk sem vann fyrir Sinn Féin á þinginu (Stormontgate). Í kjölfarið var höfðað mál gegn einum félaga í Sinn Féin sem var síðan fellt niður.[54]

Þann 28. júlí 2005 lýsti Bráðabirgða írski lýðveldisherinn yfir lokum aðgerða og hefur síðan þá tekið úr umferð það sem talið er vera allt vopnabúr þeirra. Þetta var gert undir eftirliti sérstakrar nefndar um afskráningu vopna og tveggja utanaðkomandi vitna frá kirkjunni. Margir sambandssinnar höfðu samt efasemdir um aðgerðina. Nefndin staðfesti síðar að helstu hópar sambandssinna, Varnarsamtök Ulster, UVF og Árásarsveit rauðu handarinnar, hefðu tekið úr umferð það sem þá var talið vera öll vopnabúr þeirra, í viðurvist fyrrum erkibiskupsins Robin Eames og fyrrum háttsetts opinbers starfsmanns.[55]

Þingmenn sem voru kosnir á þing 2003 komu saman 15. maí 2006 í samræmi við Lög um Norður-Írland 2006[56] til að kjósa fyrsta ráðherra og fyrsta ráðherra til vara fyrir Norður-Írland, og kjósa framkvæmdavald (fyrir 25. nóvember 2006) í aðdraganda þess að endurreisa heimastjórnina.

Eftir þingkosningar á Norður-Írlandi 2007, tók heimastjórn aftur til starfa 8. maí 2007 þar sem leiðtogi Lýðræðissinnaða sambandsflokksins, Ian Paisley varð fyrsti ráðherra, og leiðtogi Sinn Féin, Martin McGuinness fyrsti ráðherra til vara.[57] Í hvítbók vegna Brexit lýsti ríkisstjórn Bretlands því yfir að hún stæði fast að baki Belfast-samkomulaginu. Hvað varðaði stöðu Norður-Írlands stóð að breska ríkisstjórnin vilji halda í núverandi stöðu Norður-Írlands sem hluta af Bretlandi, en með sterk tengsl við Írland.[58]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Norður-Írland var hulið jökulís á síðustu ísöld eins og sést á mörgum jökulöldum í sýslunum Fermanagh, Armagh, Antrim og Down. Í miðju landinu er stærsta stöðuvatn Bretlandseyja, Lough Neagh, 391 km² að stærð. Í kringum Lough Erne í Fermanagh er stórt vatnasvæði. Stærsta eyjan við Norður-Írland er Rathlin undan strönd Antrim. Strangford Lough er stór fjörður í Down-sýslu.

Sperrin-fjöll eru framhald af Kaledóníufjöllum til suðvesturs. Þar er að finna gullnámur, granítnámur í Mourne-fjöllum og basaltnámur á Antrim-hásléttunni auk minni hæðadraga í suðurhluta Armanagh. Hæsti tindur Norður-Írlands er Slieve Donard í Mourne-fjöllum, 850 metra hár. Sú eldvirkni sem skapaði Antrim-hásléttuna myndaði líka stuðlabergið við Giant's Causeway á norðurströnd Antrim.

Árnar Bann, Foyle og Blackwater renna um stórt frjósamt láglendi. Gott landbúnaðarland er líka að finna í norður- og austurhluta Down-sýslu þótt hæðirnar henti best fyrir húsdýrarækt.

Í árdal árinnar Lagann er borgin Belfast þar sem um þriðjungur íbúa Norður-Írlands býr. Árdalurinn og bakkar Belfast Lough eru þéttbýl og iðnvædd svæði.

Loftslag á Norður-Írlandi er temprað úthafsloftslag. Úrkoma er meiri í vesturhlutanum. Veðrið er óútreiknanlegt allt árið um kring og skil milli árstíða mun minni en á meginlandi Evrópu eða austurströnd Bandaríkjanna. Meðalhiti í Belfast er mestur 6,5°C í janúar og 17,5°C í júlí. Úrkoma og skógeyðing á 16. og 17. öld hafa leitt til þess að stærstur hluti landsins er þakinn grænu grasi. Hæsti hiti sem mælst hefur var 30,8° 30. júní 1976 og lægsti hiti -18,7° 23. desember 2010.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Stormont, þinghúsið í Belfast.

Frá 1998 hefur Norður-Írland haft heimastjórn sem ber ábyrgð gagnvart þingi Norður-Írlands. Breska þingið og breska ríkisstjórnin bera ábyrgð á tilteknum málaflokkum. Meðal þeirra eru frátekin stefnumál (til dæmis í flugmálum, mælieiningum og mannerfðafræði) sem breska þingið gæti flutt til norðurírska þingsins í framtíðinni. Undanþegin mál eru mál sem varða alþjóðatengsl, skatta og kosningar sem ekki er gert ráð fyrir að muni nokkurn tíma verða flutt til norðurírska þingsins. Í öllum öðrum málum fer þingið með sína 90 fulltrúa með löggjafarvald fyrir Norður-Írland. Heimastjórn á Norður-Írlandi er háð þátttöku meðlima Norður-suður-ráðherraráðsins sem fer með stefnumótun í málefnum sem varða bæði Norður-Írland og Írska lýðveldið, eins og landbúnað, menntun og heilsugæslu. Að auki eiga ríkisstjórn Írska lýðveldisins og ríkisstjórn Bretlands í samstarfi á ríkjaráðstefnu Bretlands og Írlands.

Kosningar til norðurírska þingsins fara fram með forgangsröðunaraðferð þar sem fimm fulltrúar eru kjörnir úr hverju af 18 kjördæmum Norður-Írlands. Auk þeirra eru 18 fulltrúar kosnir á fulltrúadeild breska þingsins úr sömu einmenningskjördæmum. Þeir taka þó ekki allir sæti. Núverandi þingmenn úr flokknum Sinn Féin (sjö talsins) hafa neitað að sverja konungi hollustueið, sem er skilyrði fyrir því að taka sæti á breska þinginu. Auk þessara fulltrúa eru 25 skipaðir fulltrúar í lávarðadeild breska þingsins frá Norður-Írlandi.

Norður-Írlandsráðuneytið er fulltrúi bresku ríkisstjórnarinnar á Norður-Írlandi hvað varðar fráteknu málin og fer með hagsmuni Norður-Írlands innan bresku ríkisstjórnarinnar. Stjórn Írska lýðveldisins hefur auk þess rétt til að leggja fram álit og tillögur varðandi málefni sem varða Norður-Írland. Innanríkisráðherra Norður-Írlands er yfir ráðuneytinu. Hann situr í bresku ríkisstjórninni.

Norður-Írland er sérstakt lögsagnarumdæmi, aðskilið frá Englandi og Wales annars vegar, og Skotlandi hins vegar. Lög á Norður-Írlandi þróuðust út frá írskum lögum sem giltu fyrir skiptingu Írlands árið 1921. Á Norður-Írlandi ríkir fordæmisréttur sem er svipaður og sá sem gildir í Englandi og Wales, en það er mikilvægur munur á réttarfari milli þessara umdæma, sem endurspeglar ólíka sögu landanna.

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Norður-Írland skiptist í sex sögulegar sýslur: Antrim-sýslu, Armagh-sýslu, Down-sýslu, Fermanagh-sýslu, Londonderry-sýslu og Tyrone-sýslu. Sýslurnar eru ekki lengur stjórnsýslueiningar heldur 11 umdæmi Norður-Írlands sem ná yfir mismikið land. Samt er algengt að nota sýsluheitin í daglegu tali og þau eru enn notuð þegar sótt er um vegabréf.

Umdæmi Umdæmisráð Fundastaður Íbúafjöldi Þéttleiki Stærð km² Nr. á korti
Antrim and Newtownabbey Antrim and Newtownabbey Borough Council Newtownabbey og Antrim (til skiptis) 142.492 249 572 3
Ards and North Down Ards and North Down Borough Council Bangor 160.864 349 461 2
Armagh City, Banbridge and Craigavon Armagh City, Banbridge and Craigavon Borough Council Craigavon 214.090 160 1.337 6
Belfast Belfast City Council Belfast 341.877 2.581 132 1
Causeway Coast and Glens Causeway Coast and Glens Borough Council Coleraine[59] 144.246 73 1.980 8
Derry and Strabane Derry City and Strabane District Council Derry 150.679 122 1.238 10
Fermanagh and Omagh Fermanagh and Omagh District Council Omagh og Enniskillen[60] 116.835 41 2.857 11
Lisburn and Castlereagh Lisburn and Castlereagh City Council Lisburn[61] 144.381 286 505 4
Mid and East Antrim Mid and East Antrim Borough Council Ballymena[62] 138.773 133 1.046 7
Mid Ulster Mid Ulster District Council Dungannon[63] 147.392 81 1.827 9
Newry, Mourne and Down Newry, Mourne and Down District Council Downpatrick og Newry 180.012 110 1.633 5

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Byggingin Titanic Belfast, við skipasmíðastöð Harland & Wolff.

Hagkerfi Norður-Írlands er minnst þeirra fjögurra sem mynda hagkerfi Bretlands. Áður fyrr byggðist það aðallega á iðnaði, einkum skipasmíðum, reipagerð og vefnaði. Nú til dags starfar meirihluti íbúa við þjónustu, þar af flestir við opinbera þjónustu.

Sjötíu prósent af tekjum kemur frá þjónustugeiranum. Fyrir utan opinbera geirann, skiptir ferðaþjónusta miklu máli fyrir efnahag landsins og bar ábyrgð á 1% af tekjum árið 2004. Ferðaþjónusta hefur farið vaxandi síðan átökunum á Norður-Írlandi lauk. Sögulegu borgirnar Derry, Belfast og Armagh og margir kastalar hafa aðdráttarafl fyrir ferðafólk.

Alþjóðlega fjármálakreppan 2008 hafði neikvæð áhrif á efnahagslíf Norður-Írlands. Þingið á í viðræðum við fjármálaráðuneyti Bretlands um að fá að setja eigin skattastefnu og geta þannig boðið fyrirtækjum sams konar skattaafslætti og Írska lýðveldið. Nýlega hafa stórfyrirtæki tekið að fjárfesta í hátækniiðnaði í landinu vegna skattaafsláttar og framboðs af menntuðu starfsfólki.

Líkt og annars staðar í Bretlandi höfðu aðgerðir vegna kórónaveirufaraldursins neikvæð áhrif á efnahagslífið, sérstaklega á ferðaþjónustugeirann. Hótel og gistihús urðu að loka frá 26. desember 2020 fram í apríl 2021.[64]

Kort sem sýnir þá landshluta þar sem íbúar telja sig fremur breska (blátt) eða írska (grænt) miðað við árið 2011.

Íbúafjöldi Norður-Írlands hefur vaxið jafnt og þétt frá 1978. Í manntali árið 2021 voru íbúar 1,9 milljón og hafði fjölgað um 5% frá síðasta manntali 2011.[65] Þá var íbúafjöldinn 1,8 milljónir og hafði vaxið um 7,5% síðasta áratuginn þar á undan.[66] Íbúar Norður-Írlands eru 2,8% af heildarfólksfjölda Bretlands (sem er 67 milljónir), en 27% af íbúafjölda Írlands (7,03 milljónir). Íbúaþéttleiki er 135 íbúar á km2.

Í manntalinu árið 2021 höfðu 86,5% íbúa fæðst á Norður-Írlandi, en 4,8% höfðu fæðst annars staðar í Bretlandi og 2,1% höfðu fæðst í Írska lýðveldinu, en 6,5% annars staðar (yfir helmingur í öðru Evrópulandi).[67] Sjálfsmynd íbúa er flókin og breytileg og tengist bæði trú sem fólk elst upp við og stað sem fólk elst upp á. Þegar spurt var um þjóðerni í manntalinu árið 2021 reyndust algengustu svörin vera breskt (um 32%), írskt (um 29%) og norðurírskt (um 20%).[68] Fólki sem taldi sig írskt hafði fjölgað um tæp 4% frá 2011 meðan fólki sem taldi sig breskt hafði fækkað um 10% miðað við heildarfjölda.[69]

Meðlimir Óraníureglunnar með einkennandi harðkúluhatta í göngu í Belfast 2012.

Menning Norður-Írlands byggist á sérstæðri sögu og hefðum svæðisins og héraðsins Ulster frá fornu fari. Þar eru talaðar ensku mállýskurnar ulsterskoska og ulsterenska, auk írsku. Þar er að finna menningarhefðir sem vísa bæði til gelísks uppruna, Ulster-Skota og breskrar menningar. Að sumu leyti er menning Norður-Írlands sameiginleg menningu Ulster í heild. Ulster-bálkurinn er safn írskra sagna um sagnkonunga, guði og vætti í Ulster. Norðurírsku skáldin, Seamus Heaney, Derek Mahon og Michael Longley, vöktu athygli á tímum átakanna á Norður-Írlandi. C. S. Lewis er þekktur rithöfundur sem fæddist í Belfast. Frægir leikarar og leikstjórar frá Norður-Írlandi eru meðal annars Sam Neill, Kenneth Branagh, Liam Neeson og James Nesbitt. Sjónvarpsþættirnir Krúnuleikar voru að mestu leyti teknir upp á Norður-Írlandi. Einn þekktasti tónlistarmaður Norður-Írlands er söngvarinn Van Morrison.

Íbúar og stjórnvöld á Norður-Írlandi hafa notast við ýmsa fána og einkennistákn í gegnum tíðina, og flest þeirra eru mjög umdeild. Patrekskrossinn (rauður kross á hvítum feldi) er algengur fáni íþróttaliða frá Norður-Írlandi. Fáni Ulster (rauð hönd og rauður kross á gulum feldi) er gamall fáni héraðsins. Á honum byggist fáni Norður-Írlands sem var notaður um tíma af stjórn landsins (rauð hönd í sexhyrndri stjörnu á rauðum krossi á hvítum feldi) og er stundum kallaður „sex sýslna fáninn“. Notkun hinna ýmsu fána Norður-Írlands, auk breska og írska fánans, er oft mjög umdeild og lýsir ákveðinni afstöðu til spurningarinnar um stöðu Norður-Írlands. Fánar og ýmis önnur tákn koma oft fyrir á litríkum norðurírskum veggmyndum sem eru listform sem Norður-Írland er þekkt fyrir.

Skrúðgöngur eru annað listform sem einkennir Norður-Írland. Flestar þeirra eru haldnar af bræðrafélögum mótmælenda, eins og göngur Óraníureglunnar. Oft verða átök þegar slíkar göngur fara of nærri hverfum eða bæjum þar sem stór hluti íbúa er kaþólskur. Mótmælendur á Norður-Írlandi halda 12. júlí hátíðlegan til að minnast orrustunnar um Boyne 1690 þegar her Vilhjálms 3. vann sigur á her Jakobs 2. og tryggði þar með mótmælendum yfirburðastöðu á Írlandi. Kvöldið fyrir þann 12. er víða kveikt í bálköstum.

BBC er með sérstaka deild á Norður-Írlandi, BBC Northern Ireland, með tvær sjónvarpsstöðvar. ITV er þar með sjónvarpsstöðina UTV. Stærstu dagblöðin sem gefin eru út á Norður-Írlandi eru Belfast Telegraph, The Irish News og The News Letter.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Stanbridge, Karen (2003). Toleration and State Institutions: British Policy Toward Catholics in Eighteenth-century Ireland and Quebec. Lexington Books. bls. 43.; Ruane, Joseph (1996). The Dynamics of Conflict in Northern Ireland: Power, Conflict and Emancipation. Cambridge University Press. bls. 51.
  2. „Bank holidays“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. nóvember 2010.; „Lundy's Day: Thousands attend 'peaceful' Londonderry parade“. BBC News. desember 2012. Afrit af uppruna á 23. september 2018. Sótt 21. júní 2018.
  3. Thernstrom, Stephan (1980). Harvard encyclopedia of American ethnic groups. Harvard University Press. bls. 896. ISBN 978-0-674-37512-3. Afrit af uppruna á 13. apríl 2021. Sótt 29. október 2011.
  4. „Born Fighting: How the Scots-Irish Shaped America“. Powells.com. 12. ágúst 2009. Afrit af uppruna á 16. janúar 2010. Sótt 30. apríl 2010.
  5. James F. Lydon, The Making of Ireland: From Ancient Times to the Present Geymt 8 maí 2021 í Wayback Machine, Routledge, 1998, p. 326
  6. Stewart, A.T.Q., The Ulster Crisis, Resistance to Home Rule, 1912–14, pp. 58–68, Faber and Faber (1967) ISBN 0-571-08066-9
  7. Annie Ryan, Witnesses: Inside the Easter Rising, Liberties Press, 2005, p. 12
  8. Collins, M. E., Sovereignty and partition, 1912–1949, pp. 32–33, Edco Publishing (2004) ISBN 1-84536-040-0
  9. Gwynn, Stephen (2009) [1923]. „The birth of the Irish Free State“. The History of Ireland. Macmillan. ISBN 978-1-113-15514-6. Afrit af uppruna á 13. apríl 2021. Sótt 19. október 2020.
  10. O'Day, Alan. Irish Home Rule, 1867–1921. Manchester University Press, 1998. p. 252
  11. Jackson, Alvin. Home Rule: An Irish History, 1800–2000. pp. 137–138
  12. Hennessey, Thomas: Dividing Ireland, World War I and Partition, The passing of the Home Rule Bill p. 76, Routledge Press (1998) ISBN 0-415-17420-1
  13. Jackson, Alvin: p. 164
  14. Jackson, pp. 227–229
  15. Morland, Paul. Demographic Engineering: Population Strategies in Ethnic Conflict. Routledge, 2016. pp.96–98
  16. The Irish Election of 1918 (Report). Northern Ireland Elections. Sótt 31. ágúst 2022.
  17. 17,0 17,1 17,2 17,3 17,4 Lynch, Robert (2019), The Partition of Ireland: 1918–1925, Cambridge University Press, ISBN 9781107007734
  18. Mitchell, Arthur. Revolutionary Government in Ireland. Gill & MacMillan, 1995. p. 245
  19. Coleman, Marie (2013). The Irish Revolution, 1916–1923. Routledge. bls. 67. ISBN 978-1317801474.; Gibney, John (editor). The Irish War of Independence and Civil War. Pen and Sword History, 2020. pp.xii–xiii
  20. Pilkington, Colin (2002). Devolution in Britain Today. Manchester University Press. bls. 75. ISBN 978-0-7190-6076-2.
  21. 21,0 21,1 O'Day, Alan. Irish Home Rule, 1867–1921. Manchester University Press, 1998. p. 299
  22. Jackson, Alvin. Home Rule – An Irish History. Oxford University Press, 2004, pp. 368–370
  23. Farrell, Michael. Arming the Protestants: The Formation of the Ulster Special Constabulary and the Royal Ulster Constabulary. Pluto Press, 1983. p.166
  24. Lawlor, Pearse. The Outrages: The IRA and the Ulster Special Constabulary in the Border Campaign. Mercier Press, 2011. pp.265–266
  25. Martin, Ged (1999). „The Origins of Partition“. Í Anderson, Malcolm; Bort, Eberhard (ritstjórar). The Irish Border: History, Politics, Culture. Liverpool University Press. bls. 68. ISBN 978-0853239512. Afrit af uppruna á 29. janúar 2017. Sótt 19. október 2015.
  26. Gibbons, Ivan (2015). The British Labour Party and the Establishment of the Irish Free State, 1918–1924. Palgrave Macmillan. bls. 107. ISBN 978-1137444080. Afrit af uppruna á 29. janúar 2017. Sótt 19. október 2015.
  27. „The Stormont Papers – View Volumes“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. apríl 2016. Sótt 28. janúar 2008.
  28. „Anglo-Irish Treaty, sections 11, 12“. Nationalarchives.ie. 6. desember 1921. Afrit af uppruna á 8. nóvember 2017. Sótt 7. ágúst 2013.
  29. Knirck, Jason. Imagining Ireland's Independence: The Debates Over the Anglo-Irish Treaty of 1921. Rowman & Littlefield, 2006. p.104
  30. Lee, Joseph. Ireland, 1912–1985: Politics and Society. Cambridge University Press, 1989. p.145
  31. David McKittrick & David McVea. Making Sense of the Troubles. New Amsterdam Books, 2002. p.5
  32. 32,0 32,1 McKittrick & McVea, pp.17–19
  33. McKittrick & McVea, p.6
  34. McKittrick & McVea, p.14
  35. McKittrick & McVea, p.11
  36. Peter Barberis, John McHugh, Mike Tyldesley (editors). Encyclopedia of British and Irish Political Organizations. A&C Black, 2000. pp.236–237
  37. Whyte, John. "How much discrimination was there under the unionist regime, 1921–68?", in Contemporary Irish Studies. Edited by Tom Gallagher and James O'Connell. Manchester University Press, 1983. pp.29–32
  38. David, Trimble. „Nobel Lecture“. The Nobel Prize. Afrit af uppruna á 15. ágúst 2021. Sótt 8. ágúst 2020.
  39. "Anglo-Irish Relations, 1939–41: A Study in Multilateral Diplomacy and Military Restraint" in Twentieth Century British History (Oxford Journals, 2005), ISSN 1477-4674
  40. Boyd Black, "A Triumph of Voluntarism? Industrial Relations and Strikes in Northern Ireland in World War Two," Labour History Review (2005) 70#1 pp 5–25
  41. English, Richard. Armed Struggle: The History of the IRA. Pan Macmillan, 2008. pp.72–74
  42. "Lemass-O'Neill talks focused on `purely practical matters'" Geymt 25 september 2021 í Wayback Machine. The Irish Times, 2 January 1998.
  43. Malcolm Sutton's book, "Bear in Mind These Dead: An Index of Deaths from the Conflict in Ireland 1969–1993.
  44. „BBC – History – The Troubles – Violence“. www.bbc.co.uk. Afrit af uppruna á 5. júní 2013. Sótt 24. desember 2019.
  45. „CAIN: Northern Ireland Society – Security and Defence“. cain.ulster.ac.uk. Afrit af uppruna á 26. febrúar 2019. Sótt 25. janúar 2021.
  46. „The Cameron Report – Disturbances in Northern Ireland (1969)“. cain.ulst.ac.uk. Afrit af uppruna á 1. júní 2018. Sótt 29. október 2011.
  47. History of sectarianism in NI Geymt 1 febrúar 2014 í Wayback Machine, gale.cengage.com; accessed 27 May 2015.
  48. Stjórnskipan N-Írlands; grein í Morgunblaðinu 1972
  49. Richard English, "The Interplay of Non-violent and Violent Action in Northern Ireland, 1967–72", í Adam Roberts og Timothy Garton Ash (ritstj.), Civil Resistance and Power Politics: The Experience of Non-violent Action from Gandhi to the Present, Oxford University Press, 2009; ISBN 978-0-19-955201-6, pp. 75–90. [1] Geymt 20 mars 2017 í Wayback Machine
  50. The Ballast report Geymt 25 júní 2008 í Wayback Machine: "...the Police Ombudsman has concluded that this was collusion by certain police officers with identified UVF informants."
  51. „1973: Northern Ireland votes for union“. BBC News. 9. mars 1973. Afrit af uppruna á 27. desember 2017. Sótt 20. maí 2010.
  52. „BBC News | NORTHERN IRELAND | Republic drops claim to NI“. news.bbc.co.uk. Afrit af uppruna á 6. apríl 2003. Sótt 23. júlí 2018.
  53. Parliamentary debate Geymt 10 október 2010 í Wayback Machine: "The British government agree that it is for the people of the island of Ireland alone, by agreement between the two parts respectively, to exercise their right of self-determination on the basis of consent, freely and concurrently given, North and South, to bring about a united Ireland, if that is their wish."
  54. „Securocrat sabotage exposed | An Phoblacht“. www.anphoblacht.com. Afrit af uppruna á 30. janúar 2021. Sótt 25. janúar 2021.; McKay, Susan (2. apríl 2009). Bear in Mind These Dead. ISBN 9780571252183. Afrit af uppruna á 13. apríl 2021. Sótt 19. október 2020.
  55. "UDA confirm guns decommissioned" Geymt 12 september 2017 í Wayback Machine BBC news; sótt 29. janúar 2014
  56. „Northern Ireland Act 2006 (c. 17)“. Opsi.gov.uk. Afrit af uppruna á 8. desember 2009. Sótt 16. júní 2010.
  57. (BBC)
  58. HM Government The United Kingdom's exit from and new partnership with the European Union; Cm 9417, Febrúar 2017
  59. „Contact Us“. Causeway Coast & Glens Borough Council. Sótt 19. mars 2018.
  60. Council Meetings Geymt 9 júlí 2022 í Wayback Machine Fermanagh and Omagh District Council
  61. „Contact“. Lisburn & Castlereagh City Council. Sótt 19. mars 2018.
  62. „Schedule of Meetings“ (PDF). Mid and East Antrim Borough Council. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4. apríl 2016. Sótt 23. mars 2016.
  63. „Council Meetings 2016“. Mid Ulster District Council. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. mars 2016. Sótt 23. mars 2016.
  64. „Summary of Restrictions for Tourism & Hospitality Businesses“. Tourism NI. Afrit af uppruna á 12. apríl 2021. Sótt 12. apríl 2021.
  65. „Main statistics for Northern Ireland“ (PDF). NISRA. Sótt 22. september 2022.
  66. „Census Key Stats bulletin“ (PDF). NISRA. 2012. Afrit (PDF) af uppruna á 3. febrúar 2017. Sótt 11. desember 2012.
  67. „Main statistics for Northern Ireland“ (PDF). NISRA. Sótt 22. september 2022.
  68. Country of Birth & Nationality Geymt 6 desember 2022 í Wayback Machine - 2021 Census
  69. „Northern Ireland Census 2011 Key Statistics Summary Report“ (PDF). NISRA. Sótt 22. september 2022.
  翻译: