Fara í innihald

Sjía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sjía eða shía (frá arabíska orðinu شيعة, sem er stytting á shi`at `Ali شيعة علي, sem þýðir bókstaflega „fylgjendur Alís“) er næst stærsta trúfélag innan íslam. Eintalan á arabísku er shi`i (شيعي). Ali ibn Abi Talib var frændi spámannsins Múhameðs, tengdasonur hans og arftaki (í augum sjía-múslima).

Sjía er önnur stærsta fylkingin innan íslam. Hugmyndafræðilegur munur á súnní- og sjía-sið er í grundvallaratriðum sá, að sjítar telja að Múhameð hafi átt sér andlega arftaka, þótt hann hafi verið síðasti spámaðurinn. Þessir arftakar eru nefndir imamar. Þeir hafa í krafti innblásturs meira innsæi í eðli guðdómsins en venjulegir menn hafa. Þess vegna geta þeir túlkað Kóraninn, helgirit múslíma, og áttað sig á duldum boðskap sem þar er að finna en venjulegir menn sjá ekki.

Erfðadeilur

[breyta | breyta frumkóða]
Föstudagsmoskan í Isfahan í Íran

Sjía-múslimir hafa fyrir satt að Múhameð hafi valið Ali sem arftaka sinn og leiðtoga múslima að sér látnum. Einungis þeir sem fylgja Ali fylgja í raun hefðum og kenningum Múhameðs. Súnní-múslimar álíta hins vegar að Múhameð hafi ekki valið eftirmann sinn. Umar og Abu Bakr, tveir nánustu samverkamenn Múhameðs, völdu að honum látnum Abu Bakr sem leiðtoga múslima og fyrsta kalífann. Ali og fylgismenn hans, þar á meðal fjölskylda Múhameðs, viðurkenndu ekki þetta val. Í hefð súnní-múslima er kalífat Abu Bakrs hins vegar bæði löglegt og upphaf að réttri túlkun á hefð og reglum Múhameðs. Þessar sögulegu deilur höfðu í för með sér ólíkar túlkanir af ýmsum hlutum Kóransins og fremur öðru túlkanir og viðurkenningar á mismunandi hadíðum sem í raun stjórna trúarhefð múslima.

Samkvæmt súnní-sið, sem kenndur er við hefð, eða troðnar slóðir, er Kóraninn skiljanlegur öllum sem vilja lesa hann og leita lærdóms um hann. Ekkert í honum er hulið venjulegum mönnum. Þar er enginn dulinn boðskapur.

Í sjía-sið hafa því imamarnir kennivald, en í súnní-sið hafa engir menn kennivald. Imamarnir njóta leiðsagnar almættisins og geta því orðið trúarlegir leiðtogar venjulegs fólks sem ekki hefur þetta sérstaka samband við almættið. Sjítar bíða þess að imam geti orðið samfélagsleiðtogi og kennt hinn rétta veg. Kennimenn hafa því sterka stöðu meðal sjíta.

Sjía-þjóðfélög

[breyta | breyta frumkóða]

Engar nákvæmar tölur eru um hlutfall sjía af fjölda múslima í heiminum. Þó er allmennt álitið að um það bil 20% múslima fylgi sjía.

Meirihluti sjía-múslima býr í vesturhluta Asíu. Þeir eru í meirihluta eða mjög stór hluti íbúa í Íran, Aserbaídsjan, Írak, Jemen, Líbanon og Barein. Í Katar, Kúveit og Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru fjölmennir minnihlutahópar sjía-múslima og einnig í austurhluta Sádi-Arabíu.

Eftir valdatöku Wahhabista árið 1926 í Sádi-Arabíu hefur það opinberlega verið glæpur að tilheyra sjía í því landi. Þeir eru ofsóttir og útilokaðir frá námi og störfum. Einnig er sjía-múslimum í pílagrímsför oft gert erfitt fyrir af yfirvöldum í Sádi-Arabíu.

Talsvert fjölmennir hópar sjía-múslima eru einnig í Tyrklandi, Afghanistan, Pakistan og Indlandi.

Íranska þjóðin tók ajatollanum Ruhollah Khomeini sem imam, þótt hann liti ekki sjálfur á sig sem slíkan. Þess vegna hafði hann það ægivald í landinu sem raun bar vitni.

Trúarreglur sjía

[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðreglur sjía

[breyta | breyta frumkóða]

Sjía-múslimir halda í heiðri sömu höfuðreglur sem súnnítar kalla fimm stoðir íslams, þó svo að sjía setji þær upp á annan hátt. Höfuðreglur sjía eru meðal annars eftirfarandi:

Rætur trúarinnar (Usūl al-Dīn)

  • Tawhīd (Einþættur): Það er einungis einn Guð
  • Adalah (Réttlæti): Réttlæti Guðs
  • Nubuwwah (Spámenn): Guð hefur útsent spámenn og sendiboða til að kenna mönnum að lifa í trú.
  • Imamah (Leiðtogar): Guð hefur valið leiðtoga til að sýna mönnum rétta leið.
  • Qiyamah (Dómsdagur): Á dómsdegi mun Guð reisa alla menn frá dauða og dæma þá

Greinar trúarinnar (Furū al-Dīn)

  • Shahadah (Yfirlýsing) — Yfirlýsing um að það er einungis til einn Guð og Múhameð er spámaður hans.
  • Salat (Bæn) — kallað „Namaaz“ á persísku – að biðjast fyrir fimm sinnum á dag
  • Sawm (Fasta) – að halda föstu á hinum heila mánuði Ramadan
  • Hajj (Hadsjí) – að fara í pílagrímsför til Mekka
  • Zakat (Fátækragjöf) – gjöf til þurfandi og fátækra
  • Khums (Fimmtung) – Skattgreiðsla
  • Jihad (Barátta) – Barátta til að þóknast Guði. Hið meira eða innra jihad er innri barátta hvers manns við freistingar og rangar hugsanir. Hið minna eða ytra jihad er barátta við allt rangt í umhverfinu.
  • Amr-Bil-Ma'rūf – Lyfta fram því sem er gott
  • Nahi-Anil-Munkar – Banna það sem er slæmt
  • Tawalla – Elska Ahlul Bayt og fylgjendur þeirra
  • Tabarra – Halda sér fjarri andstæðingum Ahlul Bayt
  翻译: