Fara í innihald

Stefánskirkjan í Vín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stefánskirkjan í Vín. Suðurturninn, sem er 136 m hár, er með stillansa.

Stefánskirkjan í Vín (Stephansdom) er dómkirkja Vínarborgar og er nánast helgidómur fyrir borgarbúa. Kirkjan er meðal merkustu gotnesku bygginga Austurríkis og ein einkennisbygginga borgarinnar.

Saga kirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Stefánskirkjan árið 1600

Saga kirkjunnar hófst er erkibiskupinn í Passau í Bæjaralandi leyfði byggingu nýrrar kirkju í Vín á 12. öld. Nýja kirkjan átti að vera aðalkirkja borgarinnar. Hún var vígð 1147 og helguð heilögum Stefáni píslarvotti, enda var dómkirkjan í Passau einnig helguð honum. 1230-45 reis ný tengibygging, en meirihluti hennar brann 1258. 1304-1340 var kórinn stækkaður að muna í gotneskum stíl. Nýtt kirkjuskip var svo reist frá og með 1359. Vín varð biskupssetur 1469 og var Stefánskirkjunni þá breytt í dómkirkju, sem hún hefur verið alla tíð síðan. 1433 var suðurturninn fullgerður. Hann er 136 metra hár og er hæsti kirkjuturn Austurríkis. Gefin var út tilskipun þess efnis að engin kirkja í Austurríki mætti vera hærri. 1450 var hafist handa við að reisa norðurturninn. Hann átti að vera sambærilega hár suðurturninum, en verkinu lauk aldrei og er hann er ófullgerður. Þó fékk hann lítið laukþak 1578. Norðurturninn er því eingöngu 68 metra hár og gefur hann kirkjunni nokkuð sérkennilegt útlit. Þegar Tyrkir réðust á Vín í síðara skiptið árið 1683, skemmdist kirkjan talsvert af fallbyssukúlum. Í sprengjuregni og götubardögum heimstyrjaldarinnar síðari slapp kirkjan við allar skemmdir, nema gluggarnir. En 11. apríl 1945 voru nokkrir Austurríkismenn að ræna búðir í kringum Stefánstorgið þar sem kirkjan stendur. Þeir lögðu eld í nokkrar þeirra, en eldurinn breiddist út og læsti sig einnig í kirkjuna. Þak hennar og norðurturninn brunnu. Mikið af innviðinu eyðilagðist. Þannig brann klukknaverkið og féllu nokkrar kirkjuklukkur niður. Gamla orgelið frá 1886 eyðilagðist líka. Ekkert slökkvilið var tiltækt, enda götubardagar í gangi. Næsta morgun hertóku Sovétmenn hverfið og var skaðinn skeður. Sökum þess hve mikilvæg Stefánskirkjan var í augum Vínarbúa, var ákveðið að gera við bygginguna strax að loknu stríði. Fjármagnið kom úr vasa borgarbúa og var kirkjan endurvígð 1952.

Keisaraeiðurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Karl VI keisari sór árið 1713 eið í Stefánskirkjunni þess efnis að hann skyldi reisa nýja kirkju ef mannskæðu pestinni í borginni létti. Á þeim tíma vissu menn ekki hvers eðlis pestir væru og hvort þessi pest yrði komin til að vera og bana öllum íbúum borgarinnar. Því ákvað keisari að sverja slíkan eið. Pestin rénaði þó brátt og þremur árum síðar efndi Karl keisari eið sinn og lét reisa Karlskirkjuna í borginni.

Kirkjuklukkur

[breyta | breyta frumkóða]
Pummerin er þriðja þyngsta kirkjuklukka Vestur-Evrópu

Stefánskirkjan er með kirkjuklukkur í öllum fjórum turnum sínum, þ.e. norðurturninum, suðurturninum og tveimur smáturnum. Helsta klukkan heitir Pummerin og hangir í norðurturninum (minni turninum). Hún er stærsta og þyngsta kirkjuklukka Austurríkis. Pummerin var smíðuð úr málmi tyrkneskra fallbyssna eftir misheppnaða árás Tyrkja á Vín 1683. Þyngd hennar var 22,5 tonn. Mikið skraut var á klukkunni og nokkrar innskriftir. Klukkan var svo stór að hún passaði eingöngu í gegnum eitt tiltekið borgarhlið. Eftir að inn var komið varð að flytja klukkuna eftir krókastigum, þar sem göturnar voru nógu breiðar. Þrátt fyrir það stórskemmdust tveir múrveggir við flutninginn. Klukkan var sett upp í norðurturninn og vígð 15. desember 1711. Hana átti þó eingöngu að nota við sérstaka viðburði. Henni var hringt í fyrsta sinn 27. janúar 1712 við komu Karls VI til Vínar eftir að hann var krýndur keisari þýska ríkisins. Við það tækifæri urðu 16 manns að handknýja klukkuna og tók það 15 mínútur fyrir þá að láta kólfinn slá í klukkuna í fyrsta sinn. Pummerin eyðilagðist í eldi þegar kviknaði í Stefánskirkjunni 11. apríl 1945 af gáleysi nokkurra þjófa. Þegar norðurturninn brann, eyðilagðist festingin og Pummerin féll niður. Hún brotnaði er hún skall á steingólfið fyrir neðan. 1951 var ný Pummerin smíðuð. Málmurinn kom að hluta úr gömlu klukkunni, en einnig úr nokkrum öðrum smærri klukkum sem höfðu eyðilagst og úr klukkusmiðjunni sjálfri. Nýja klukkan vó 21 tonn og er því ívið léttari en gamla klukkan. Nokkrar myndir prýða nýju klukkuna og þar eru þrjár innskriftir. Pummerin er því fimmta stærsta hreyfiklukka heims og sú þriðja stærsta í Vestur-Evrópu. Þvermál klukkunnar er 314 cm og eftirómur hennar varir í 200 sekúndur. Pummerin er eftir sem áður eingöngu notuð við sérstaka viðburði. Henni var t.d. hringt:

Listinn er ekki tæmandi.

Listaverk og dýrgripir

[breyta | breyta frumkóða]

Altaristaflan

[breyta | breyta frumkóða]
Altaristaflan er ca. 12 metra há

Altaristafla Stefánskirkjunnar er dýrgripur úr marmara og grjóti. Hún var smíðuð 1641-45 eftir að gamla taflan var orðin of ormétin. Taflan er um 12 metra há. Hana prýða tvö málverk og sex styttur, fjórar á stallinum og tvær efst. Neðri stytturnar eru af Leópold og Flórían (verndardýrlinga landsins) og Sebastian og Rochus (verndardýrlinga gegn pestum). Efri stytturnar eru af Rúpert og Bónifatíus (verndardýrlinga kristninnar fyrr á öldum). Aðalmálverkið sýnir píslarvættisdauða Stefáns, en hann er verndardýrlingur kirkjunnar.

Wiener Neustadt altarið

[breyta | breyta frumkóða]
Wiener Neustadt-altarið er mikil listasmíð

Stefánskirkjan er með nokkur hliðaraltari. Eitt þeirra er Wieder Neustadt altarið, en það var smíðað 1447 og er því tveimur öldum eldra en háaltarið. Altarið var gjöf Friðriks III keisara til klaustursins í Wiener Neustadt, en flutt í Stefánskirkjuna 1884. Altaristaflan er með tveimur hliðartöflum sem hægt er að loka. Það er elsta slíka altaristafla Austurríkis. Myndefnið er gert úr viðarstyttum og eru af dýrlingum ýmissa landa og ýmissa tímabila (t.d. heilagrar Katríar, Barböru, Lúsíu, Úrsúlu o.fl.). Á bakhlið hliðararmanna (þegar þeir eru lokaðir) eru málverk af nokkrum postulum, dýrlingum og páfum. Altaristaflan er allt í allt stórkostlegt listaverk. Það skemmdist ekki í brunanum 1945, en viðgerð á því 1950 og 1952 þótti koma illa út.

Predikunarstóllinn

[breyta | breyta frumkóða]

Predikunarstóllinn er fyrir miðju kirkjuskipsins og er gerður úr kalksteini við smíði skipsins á miðri 14. öld. Myndefni stólsins var gert síðar, 1510-15. Fjórar mannsmyndir eru hringinn í kringum stólinn. Þær sýna lærifeðurnar í frumkristni: Ágústínus, Ambrosíus, Gregor hinn mikla og Híeronýmus. Þeir vísa einnig til hinna fjögurra skapgerða og hinna fjögurra aldurshópa.

Bænahús keisara

[breyta | breyta frumkóða]
Bænahús keisara

Í kirkjuskipinu er sérstakur skápur sem lokaður er fyrir almenningi. Hér er um bænahús keisarans að ræða, þ.e. staður þar sem keisarinn gat kropið niður og beðið einsamall án truflunar annarra kirkjugesta. Bænahúsið er tvílyft, þ.e. neðri skápurinn og efri skápurinn. Þeir voru smíðaðir 1644 og voru notaðir í fyrsta sinn af Ferdinand III keisara.

Langflestir upphaflegir gluggar Stefánskirkjunnar eru týndir. Skipt hefur verið um glugga nokkru sinnum í gegnum tíðina, þar sem mönnum þótti eldri gluggarnir ekki lengur passlegir fyrir nýja tíð. Allir gluggar kirkjunnar eyðilögðust hins vegar í höggbylgjum sprengna í heimstyrjöldinni síðari, sem og í eldinum sem braust út í kirkjunni 1945. Aðeins tveir gluggar í kórnum hafa lifað tíðina af og eru upprunalegir gluggar kirkjunnar. Annar sýnir hertogann Leópold I af Habsborg, en hinn hertogann Rúdolf I af Bæheimi. Allir aðrir gluggar kirkjunnar í dag eru gjafir héðan og þaðan.

Grafhvelfing

[breyta | breyta frumkóða]

Í Stefánskirkjunni er grafhvelfing þar sem 19 einstaklingar hvíla í steinkistum.

Röð Einstaklingur Ath. Dánarár
1 Friðrik III Keisar þýska ríkisins 1330
2 Elísabet hertogaynja Dóttir Friðriks III hertoga 1336
3 Friðrik III Hertogi af Austurríki 1362
4 Rúdolf IV Erkihertogi af Austurríki 1365
5 Katarína erkihertogaynja Dóttir Albrechts I hertoga 1381
6 Katarína af Lúxemborg Eiginkona Rúdolfs IV erkihertoga 1395
7 Albrecht III Erkihertogi af Austurríki 1395
8 Albrecht IV Erkihertogi af Austurríki 1404
9 Jóhanna Soffía frá Bæjaralandi Eiginkona Albrechts IV 1410
10 Beatrix af Zollern Eiginkona Albrechts III 1414
11 Georg Nýfæddur sonur Albrechts II konungs 1435
12 Vilhjálmur Erkihertogi af Austurríki 1406
13 Leopold IV Erkihertogi af Austurríki 1411
14 Albrecht VI Erkihertogi af Austurríki 1463
15 Ferdinand Ungur sonur Maximilians II keisara 1552
16 Elísabet af Austurríki Eiginkona Karls IX Frakklandskonungs 1592
17 Ónefndur prins Ungur sonur Maximilians II keisara 1557
18 María Nýfædd dóttir Maximilians II keisara 1564
19 Eleonóra Gonzaga Síðari eiginkona Ferdinands II keisara 1655
Steinkista Friðriks III keisara

Auk ofangreindra aðila eru innyfli ýmissa hertoga Habsborgara, kardinála Vínar og erkibiskupa geymd í krukkum og öðrum ílátum í grafhvelfingunni, þar á meðal Napoleons Frans Bonaparte, sonur Napoleons Bonaparte. Í postulakórnum, inn af kirkjuskipinu, er svo enn ein steinkista. Í henni hvílir Friðrik III keisari, en hann var lagður í hana 1513. Þar er einnig steinkista hertogans Rúdolfs IV, en hún er tóm, því hertoginn hvílir í grafhvelfingunni ásamt Katarínu eiginkonu sinni.

  翻译: