Fara í innihald

Holland

Hnit: 52°20′00″N 05°30′00″A / 52.33333°N 5.50000°A / 52.33333; 5.50000
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

52°20′00″N 05°30′00″A / 52.33333°N 5.50000°A / 52.33333; 5.50000

Holland
Nederland
Fáni Hollands Skjaldarmerki Hollands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Je maintiendrai (franska)
Ég mun standa fast
Þjóðsöngur:
Het Wilhelmus
Staðsetning Hollands
Höfuðborg Amsterdam
Opinbert tungumál hollenska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Vilhjálmur Alexander
Forsætisráðherra Dick Schoof
Sjálfstæði frá Spáni
 • Yfirlýst 26. júlí 1581 
 • Viðurkennt 30. janúar 1648 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
134. sæti
41.543 km²
18,41
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
67. sæti
17.896.000
423/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 1.055 millj. dala (27. sæti)
 • Á mann 60.461 dalir (11. sæti)
VÞL (2019) 0.944 (8. sæti)
Gjaldmiðill Evra (€)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .nl
Landsnúmer +31

Holland (hollenska: Nederland) er land sem er að mestum hluta í Vestur-Evrópu en líka að hluta til í Karíbahafi. Það er hluti af Konungsríkinu Hollandi.

Holland er 41.548 km² að stærð og er stór hluti landsins neðan sjávarmáls. Landið var efnahagslegt stórveldi frá 16. öld til 18. aldar. Holland er í Evrópusambandinu. Höfuðborgin er Amsterdam, þó svo að stjórnsýsla landsins sé í Haag.

Holland hét upphaflega Holtland (eða Holtlant), sem merkir skógarland.[1] Mun téið hafa dottið burt á 9. öld. Þó er Holland eingöngu eitt (reyndar tvö) af tólf héruðum landsins. Upphaflega kallaðist landið allt, ásamt Belgíu, Niðurlönd (Nederlanden) í fleirtölu. Heitið er til komið sökum þess að þeim var stjórnað af hertoganum frá Búrgund og hann kallaði löndin neðri löndin, í þeirri merkingu að þau lægju neðar með stórfljótunum. Þegar sjálfstæði Hollands var viðurkennt 1648 hét það Nederlanden (Niederlande á þýsku, Netherlands á ensku, Les Pays Bas á frönsku). En sökum þess að héraðið Holland er aðalhérað landsins og tók sig mest fram í sjálfstæðisstríðinu við Spánverja, fóru menn að nota orðið Holland um landið allt. Á íslensku hefur orðið Niðurlönd aldrei verið mikið notað, en hafa ber í huga að landið heitir opinberlega Nederlanden á hollensku og það getur verið móðgun við marga Hollendinga að kalla landið Holland, ekki ólíkt því að tala um allt Bretland sem England.

Niðurlönd voru hluti af frankaríkinu mikla sem Karlamagnús setti saman. Eftir fráfall hans skiptist ríkið í þrennt 843 og lentu Niðurlönd í miðríkinu, Lóþaringíu. Þegar því var hins vegar skipt milli franska ríkisins og þýska ríkisins 855, lentu þau í þýska ríkinu. Þar var hins vegar engin ríkisheild, heldur stjórnuðu greifar og furstar löndunum. Niðurlöndum var stjórnað af greifanum frá héraðinu Hollandi, hertoganum frá Geldern og hertoganum frá Brabant. Auk þess af biskupnum frá Utrecht. Það var hertoginn frá Búrgúnd sem sameinaði löndin. Búrgúnd var staðsett við Rínarfljót ofanvert og því var byrjað að tala um héruðin sem löndin neðan fljóta (Niðurlönd). Eftir að Karl hinn hugrakki, hertogi Búrgúnd, lést í orrustunni við Nancy 1477, erfði María dóttir hans öll Niðurlönd. Hún missti móðurlandið (Búrgúnd) til Frakklands, en hélt Niðurlöndin eftir. Eiginmaður hennar var Maximilian frá Habsborg og stjórnuðu þau Niðurlöndum frá Brussel.

Vilhjálmur hertogi af Óraníu-Nassau var leiðtogi uppreisnarmanna

Með andláti Maríu og Maximilians erfði Habsborg Niðurlöndin. Árið 1506 erfði Karl V Niðurlönd en hann var þá aðeins 6 ára gamall. Karl var barnabarn Maríu og Maximilians. Árið 1519 var Karl kjörinn sem keisari þýska ríkisins og sem aðalerfingi Habsborgara ríkti hann yfir þýska ríkinu, Austurríki, Spán og Niðurlönd. Á hans tíma hófust siðaskiptin, bæði með Lúther í þýska ríkinu og með Kalvín og Zwingli í Sviss. Kalvínisminn breyddist hratt út og áður en varði var stór hluti Niðurlanda heltekinn af honum, sérstaklega í norðurhéruðunum. Karl V keisari gat lítið við ráðið á Niðurlöndum, því trúaróróinn í þýska ríkinu hélt honum uppteknum þar. Karl sjálfur var strangtrúaður kaþólikki. 1556 lét hann af völdum og deildi ríkinu með nokkrum erfingjum. Bróðir hans, Filippus, fékk Spán og Niðurlönd. Filippus var einnig strangtrúaður kaþólikki og mislíkaði hvernig Niðurlöndin meðtóku siðaskiptin. Hann hóf því að ofsækja alla kalvínista og aðra sem ekki voru kaþólskrar trúar. Í kjölfarið gerðu norðurhéruðin uppreisn gegn Filippusi, sem sjálfur sat á Spáni. Landstjórinn í Brussel, Margrét frá Parma, réði ekki við ástandið, og því skipaði Filippus hertogann af Alba sem landstjóra á Niðurlöndum árið 1567. Alba stjórnaði þar með þvílíkri grimmd og offorsi að við lá algerri upplausn í löndunum. Til að mynda lét hann spænska hermenn sína ræna og rupla í Antwerpen í þrjá heila daga en borgin var kalvínísk á þessum tíma. Einnig lét hann safna sex þúsund af helstu uppreisnarmönnum Niðurlendinga til Brüssel og lét slátra þeim þar. Uppreisn Niðurlendinga varð að frelsisstríði.

80 ára stríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Frelsisstríð Niðurlendinga stóð yfir með hléum í 80 ár. 1573 var Alba kallaður heim og Requesens tók við af honum sem landstjóri. Ekki fórst honum betur að stjórna landinu. Í fyrsti bauð hann íbúunum sáttarhönd, en krafðist síðan himinhárra skatta. Við það færðust Niðurlendingar í aukanna og söfnuðu liði. Fyrsta orrustan var háð 1574 við Middelburg í Sjálandi (Zeeland). Þar sigruðu Niðurlendingar og hröktu þeir Spánverja burt. Foringi uppreisnarmanna var Vilhjálmur af Óraníu, en bróðir hans, Lúðvík af Nassau, féll í orrustunni. Ári síðar náðu uppreisnarmenn borgina Leiden á sitt vald, sem og héruðin Holland og Sjáland. Floti Hollendinga átti stóran þátt í þessum sigrum, því hann stöðvaði alla flutninga spænskra skipa. Eftirmaður Requesens varð Jóhann af Austurríki. Í tíð hans settust öll sautján héruð Niðurlanda að samningaborði við Jóhann, þar sem saminn var friður. Þetta var síðasta sameiginlega verk hinna 17 héraða. Friðurinn var úti 1579, enda mismunaði Jóhann íbúunum eftir trú þeirra. Hann hyglaði kaþólikkum, en hóf að ofsækja aðra á ný. Ástandið varð óþolandi og settust fulltrúar sjö héraða í norðri niður í Utrecht og gerðu með sér bandalag (Utrecht-bandalagið). Þetta voru héruðin Holland, Sjáland, Groningen, Utrecht, Frísland, Gelderland og Overijssel. Héruðin Brabant og Flandur voru með í bandaladinu. En 1581 sagði bandalagið (án Brabant og Flandur) sig úr lögum við spænska landstjórann í Brussel og lýstu yfir sjálfstæði. Leiðtogi þeirra var Vilhjálmur af Óraníu. Stríðið hófst á ný. Spánverjar hertóku Brabant og Flandur og settust um ýmsar borgir í suðurhluta Niðurlanda. Á næstu árum höfðu stríðsaðilar ýmist betur. 1601 féll Antwerpen á ný og 1604 féll Oostende. Samið var um vopnahlé 1609 en samfara 30 ára stríðinu brutust átök út á ný eftir tólf ár. Spánverjar náðu Breda eftir nokkurra ára umsátur, en á móti náðu Hollendingar Haag og Maastricht. Spánverjar liðu fyrir erfiða flutninga á vörum og hermönnum, því eftir ósigur flotans (Armada) gegn Englendingum 1588 var sjóveldi þeirra brotið. Hollendingar og Spánverjar sömdu um frið samfara friðarsamningunum í Vestfalíu eftir 30 ára stríðið. Í samningunum viðurkenndu Spánverjar sjálfstæði Hollands, það er að segja norðurhéraða Niðurlanda. Suðurhlutinn (seinna Belgía) var enn eign Spánar.

Gullaldarárin

[breyta | breyta frumkóða]
Skip Austur-Indíafélagsins. Málverk eftir Hendrick Corneliszoon Vroom

Meðan sjálfstæðisstríðið geysaði enn hófu Hollendingar að sigla um heimsins höf og stofna nýlendur víða í heimi. Fyrsta nýlenda Hollendinga var eyjan Máritíus í Indlandshafi 1598. Þar með hófst gullöld Hollendinga í siglingu og verslun. 1602 var hollenska Austur-Indíafélagið stofnað, en Hollendingar eignuðu sér nýlendur víða í Suður-Asíu, svo sem Indónesíu, Síam (Tælandi) og Indlandi. Helsta nýlendan var Batavía á eyjunni Jövu (nú Jakarta). 1620 eignuðu Hollendingar sér fyrstu nýlenduna í Vesturheimi með St. Maarten. 1624 stofnuðu þeir landnám í Nýju Hollandi (Nieuw Holland) í Norður-Ameríku. Höfuðstaðurinn hét Nýja Amsterdam á eyjunni Manhattan. Önnur þorp voru til dæmis Breukelen og Haarlem. Um miðja 17. öld hófst hins vegar fyrsta verslunarstríðið við Englendinga. Þegar Oliver Cromwell varð einvaldur í Bretlandi, hófst aggressíf stefna Breta í nýlendum bæði í vestri og í austri. Í kjölfarið hófst annað verslunarstríð Hollands og Bretlands. Í því hertóku Bretar Nýju Amsterdam og hröktu alla Hollendinga þaðan. Nýja Amsterdam breyttist í enska nýlendu og kallaðist New York. Bæirnir Haarlem og Breukelen (Brooklyn) urðu sömuleiðis enskir. Fyrsta nýlenda Hollendinga í Afríku var Grænhöfði í Senegal 1617. En stærsta landnám Hollendinga var í Suður-Afríku en þar var nýlenda stofnuð 1652. Hollendingar dreifðu sér víða um suðurhluta álfunnar en Bretar innlimuðu það í heimsveldi sitt í seinna Búastríðinu 1889-1902. Margar af þessum nýlendum glötuðu Hollendingar til Breta, aðrar voru yfirgefnar og enn aðrar hlutu sjálfstæði, svo sem Indónesía 1949 og Súrínam 1975. Í dag eiga Hollendingar aðeins örfáar eyjar í Vesturheimi. Meðan gullöld Hollendinga stóð yfir var einnig mikill uppgangur í vísindum og menningu. Fyrsti háskóli Hollands var stofnaður í Leiden 1575. Meðal þekktra hollenskra vísindamanna á þessum tímum má nefna Christiaan Huygens og Antoni van Leeuwenhoek. Meðal þekktra málara má nefna Rembrandt, Jan Steen og Frans Hals. Gullaldarár Hollands hnigu til viðar síðla á 17. öld. Kom þar til að þriðja verslunarstríð við Breta frá og með 1672 endaði í ósigri. Hollendingar kalla þetta ár Rampjaar (hamfaraár). Í stríðinu þrömmuðu herir frá Frakklandi og þýska ríkinu inn í Holland. Í kjölfarið misstu Hollendingar margar nýlendur og Bretar tóku við sem helsta siglingaþjóð heims. Síðasta nýja nýlenda Hollendinga var Petit Popo í Tógó árið 1731 (yfirtekin af Frökkum 1760). Árið 1689 ráku Englendingar af sér konung sinn, Jakob II, og kölluðu eftir Vilhjálmi landstjóra í Hollandi en eiginkona hans var náin erfingi. Vilhjálmur sigldi undir eins til Englands og tók við völdum sem Vilhjálmur III. Bretland og Holland voru því undir sama þjóðhöfðingja í skamman tíma.

Franski tíminn

[breyta | breyta frumkóða]
Vilhjálmur I., fyrsti konungur Niðurlanda 1815.

1780 var Holland fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Bandaríkjanna. Út frá því hófst fjórða stríðið við Englendinga sem aftur leiddi til borgarastríðs og efnahagshruns. Því var vart lokið er franskur byltingarher hertók Holland 1795 og stofnaði lýðveldi sem kallaðist Batavíska lýðveldið. Það var ekkert annað en leppríki Frakklands. Fjórum árum síðar bætti Napoleon Belgíu og Lúxemborg við og breytti nýja ríkinu í konungsríki. Konungur þess var Lúðvík Bonaparte, bróðir Napoleons. Ríki þetta varaði stutt, því Napoleon var mjög ósáttur hvernig bróðir sinn rak ríkið. Lúðvík Bonaparte bar nefnilega hagsmuni Niðurlendinga ofar hagsmunum Frakka. Því setti Napoleon bróður sinn af 1810 og innlimaði Niðurlönd inn í Frakkland. Þeim var eftirleiðis stjórnað frá París. Eftir hinn misheppnaða Rússlandsleiðangur Napoleons 1813, voru Frakkar hraktir úr landi. Holland, Belgía og Lúxemborg stofnuðu stórt sameiginlegt ríki og lýstu yfir sjálfstæði. Þetta ríki hlaut viðurkenningu Vínarfundarins 1815 og gildir það ár sem stofnár ríkisins. Konungur þessa ríkis varð Vilhjálmur I af ætt Óraníu-Nassau. Þrátt fyrir að Belgar væru loks sjálfstæðir og lausir undan yfirráðum erlendra ríkja, voru þeir óánægðir með nýja fyrirkomulagið. Ástæðan var einföld. Þeim fannst Hollendingar líta á sig sem annars flokks þegna. Belgar voru enn kaþólskir en Hollendingar höfðu gengið í gegnum siðaskipti og voru kalvínistar. Belgía var iðnvæddara land en Hollendingar notfærðu sér tækni þeirra og skatta. Að lokum töluðu margir Belgar frönsku, meðan aðalmálið í Hollandi var hollenska. 1830 gerðu Belgar byltingu og sögðu sig úr sambandi við Holland. Vilhjálmur sendi herlið til suðurs en neyddist til að draga það til baka er Frakkar sendu einnig herlið til landamæra Belgíu. Vilhjálmur viðurkenndi ekki nýja ríkið fyrr en 1839. Það ár sagði Lúxemborg sig einnig úr sambandi við Holland. Því urðu til þrjú sjálfstæð ríki. Eitt mesta þrætueplið var héraðið Brabant. Suðurhlutinn var kaþólskur og frönskumælandi að mestu. Því var héraðinu skipt upp. Norður-Brabant varð að héraði Hollands en Suður-Brabant að héraði Belgíu. Limburg hélst í Hollandi. Flandur hélst hins vegar í Belgíu.

Holland fram að heimstyrjöldinni síðari

[breyta | breyta frumkóða]

1848 fengu Hollendingar fyrstu stjórnarskrána sína. Þá var Vilhjálmur II við völd. Ýmsar breytingar voru gerðar í landinu. Fyrst og fremst varð Holland að lýðveldi, það er að segja landinu var breytt í þingbundna konungsstjórn. Vilhjálmur II missti eiginlega öll völd. Hann var enda orðinn gamall og lést ári síðar. Sonur hans, Vilhjálmur III, skipti sér nánast ekkert af stjórnmálum. Með nýju stjórnarskránni var kaþólska kirkjan viðurkennd á ný í Hollandi, eftir að hafa verið þrætuepli frá miðri 16. öld. Kaþólskir biskupsstólar voru þar með endurreistir. Þó fóru engar kosningar fram. Með nýrri stjórnarskrá 1884 var eiginlegt kosningakerfi tekið upp, þótt það hafi verið frumstætt. Það var ekki fyrr en 1917 sem allir karlmenn landsins fengu almennan kosningarétt. Konur fengu kosningarétt 1922. Þegar heimstyrjöldin fyrri braust út 1914 lýstu Hollendingar yfir hlutleysi. Þrátt fyrir það var herinn settur í viðbragðsstöðu. Prússar hertóku Belgíu nánast í hendingskasti og orsakaði það mikinn straum flóttamanna yfir til Hollands. Við stríðslok 1918 afþakkaði síðasti keisari Þýskalands, Vilhjálmur II, völdum og fór í útlegð til Hollands.

Stríð og herseta

[breyta | breyta frumkóða]
Loftárásin á Rotterdam 14. maí 1940
Húsið sem Anna Frank og fjölskylda hennar földust stendur við Prinsengracht 263 í Amsterdam

1939 hófst heimstyrjöldin síðari. Hollendingar lýstu á ný yfir hlutleysi en lágu þó hernaðarlega á óheppilegum stað (milli Þýskalands, Frakklands og Bretlands). 10. maí 1940 ruddu nasistar inn í Holland og hertóku landið á fjórum dögum. Síðasta daginn var aðeins barist í Rotterdam. 14. maí létu nasistar því sprengjum rigna yfir borgina, sem eyðilagðist að stórum hluta. 800 manns biðu bana og 78 þúsund manns urðu heimilislausir. Eftir þennan atburð gafst hollenska stjórnin upp. Helstu ráðamenn flúðu til Englands, þar á meðal konungsfjölskyldan, þar sem útlagastjórn var mynduð. Strax í upphafi hófu Þjóðverjar að flytja gyðinga úr landi og fangelsa andspyrnumenn. Fram til 1945 voru 160 þúsund hollenskir gyðingar fluttir úr landi, þar á meðal Anna Frank og fjölskylda hennar. Saga fjölskyldunnar varð heimskunn er dagbók Önnu fannst síðar og var gefin út. Þjóðverjar settu landið undir herstjórn, án aðkomu Hollendinga. 5. september 1944 ruddist herlið bandamanna inn í Holland í því skyni að ná haldi á helstu brúm yfir stórfljótin. Hollendingar héldu að frelsun þeirra væri í vændum og kölluðu daginn Dolle Dinsdag (hinn galni þriðjudagur). Þjóðverjar náðu hins vegar tökum á ástandinu. Í refsingarskyni voru matarflutningar til íbúanna takmarkaðir og var veturinn 1944-45 því hungurveturinn mikli (Hongerwinter) þar í landi. Holland var ekki frelsað fyrr en á vormánuðum 1945 er Þjóðverjar létu undan síga gegn ofurefli bandamanna bæði í vestri og austri. Í Asíu hertóku Japanir hollensku nýlendurnar í Austur-Indíum. Þegar Japanir gáfust upp í ágúst 1945, markaði það endalok heimstyrjaldarinnar. Hins vegar tók sjálfstæðisstríð eyjanna gegn Hollendingum við. Það endaði með því að Hollensku Austur-Indíur lýstu yfir sjálfstæði 1949 og kölluðu sig Indónesía. Þar með átti Holland eingöngu nokkrar nýlendur eftir í Vesturheimi. Eftir stríð gerðu Hollendingar tilkall til nokkurra þýskra jaðarsvæða við hollensku landamærin. Þannig var bærinn Elten innlimaður og sömuleiðis héraðið Selfkant 1949. Báðum svæðunum var skilað síðar.

Nútíma Holland

[breyta | breyta frumkóða]
Sjávarvarnargarður við Oosterschelde

Margir töldu að tap Hollensku Austur-Indía hefðu efnahagslegt bakslag í för með sér. En hið gagnstæða átti sér stað. Á tiltölulegum skömmum tíma varð Holland að mjög iðnvæddu ríki. Velgengnin í landbúnaði og hátækniiðnaði var gríðarleg. 1952 var Holland stofnland í kola- og stálbandalaginu (fyrirrennari EB). Mjög snemma urðu íbúar jaðarsvæða Hollands og Þýskalands að takast á við ágang sjávar. Stormflóð riðu yfir landið og brutu af því. Þúsundir manna létust og urðu heimilislausir. Síðasta stóra stormflóð í Hollandi átti sér stað 1953 og biðu tæplega tvö þúsund íbúar Sjálands og Suður-Hollands bana. Í kjölfarið var verkefninu Deltaplan hrundið af stað. Reistir voru gríðarmiklir varnargarðar í óshólmum Rín og Maas. Einnig var mynni Ijsselmeer girt af með einum lengsta sjávarvarnargarði heims. Þetta þýddi að stór hluti landsins var neðan sjávarmáls á flóði. Varnargarðarnir eru flestir með lokur, þannig að á fjöru geta árnar flætt óhindrað út í sjó í nokkra klukkutíma. Sömuleiðis var net vatnaleiða skipulagt fyrir skipaleiðir. Verkefni þessu lauk ekki fyrr en 1997 og kostaði þá sex milljarðar gyllini þá. Við þornun Ijsselmeer 1986 varð til nýtt fylki, Flevoland, en það mun vera einstakt í heiminum að vinna land úr sjónum fyrir heilt fylki. 1973 lýsti Súrínam yfir sjálfstæði. Eftir þetta eru einu eyjarnar sem enn tilheyra Hollandi Arúba og Hollensku Antilleyjar, það er eyjarnar Curacao, Sint Maarten, Bonaire, Sint Eustatius og Saba.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Þannig liti Holland út í dag án sjávarvarnargarða

Holland liggur syðst við Norðursjó í Vestur-Evrópu, gegnt Bretlandi. Það á landamæri að Þýskalandi í austri og Belgíu í suðri. Holland er ákaflega flatt land og býr við það að þrjú stórfljót eiga óshólma sína innan landsins: Rín, Maas og Schelde. Fyrir vikið hefur vesturhluti strandlengju landsins mótast af ám og óshólmum. Auk þess hafa stormflóð brotið niður landið við vestur- og norðvesturströndina og hefur það mótað mannlíf í gegnum aldirnar. Á 20. öld hófst gríðarstórt verkefni landsins (Deltaplan) við að temja vatnið, bæði sjóinn og árnar, með víðáttumiklum varnargörðum, skurðum og dælukerfi. Fyrir vikið er stór hluti landsins neðan sjávarmáls. Íbúar eru 16,5 milljónir. Til Hollands teljast einnig Vesturfrísnesku eyjarnar undan norðurströndinni, sem og nokkrar gamlar nýlendur í Vesturheimi (Hollensku Antillaeyjar og Arúba).

Amsterdam, Rotterdam og Haag eru langstærstu borgir landsins. Eftir það er stór hópur meðalstórra borga. Stærstu borgir Hollands:

Röð Borg Íbúafjöldi Hérað
1 Amsterdam 780 þúsund Norður-Holland
2 Rotterdam 610 þúsund Suður-Holland
3 Haag (Den Haag, ’s-Gravenhage) 494 þúsund Suður-Holland
4 Utrecht 311 þúsund Utrecht
5 Eindhoven 215 þúsund Norður-Brabant
6 Tilburg 206 þúsund Norður-Brabant
7 Groningen 190 þúsund Groningen
8 Almere 190 þúsund Flevoland
9 Breda 174 þúsund Norður-Brabant
10 Nijmegen 164 þúsund Gelderland
11 Enschede 157 þúsund Overijssel
12 Apeldoorn 156 þúsund Gelderland
13 Haarlem 147 þúsund Norður-Holland
14 Arnhem (Arnheim) 141 þúsund Gelderland
15 Zaanstad 140 þúsund Norður-Holland
16 Amersfoort 135 þúsund Utrecht
17 Hertogenbosch ('s-Hertogenbosch) 134 þúsund Norður-Brabant
18 Haarlemmermeer 132 þúsund Norður-Holland
19 Maastricht 122 þúsund Limburg
20 Dordrecht 119 þúsund Suður-Holland

Ár og fljót

[breyta | breyta frumkóða]

Rínarfljót er mest áberandi fljótið í Hollandi. En strax eftir að það kemur yfir landamærin til Hollands, klofnar það í tvær stórar kvíslar, Lek og Waal. Lek klofnar svo aftur tvisvar. Fyrri aðgreiningin heitir Ijssel en hin seinni Oude Rijn. Kvísl frá báðum ánum Lek og Waal sameinast svo aftur rétt áður en að Norðursjó kemur og gerir vatnakerfið svolítið flókið. Sökum þess að óshólmar þessara áa eru neðan sjávarmáli, geta þær ekki runnið til sjávar nema í nokkra klukkutíma á dag þegar fjarar út. Gríðarstórir varnargarðar halda vatninu lokuðu inni í landi meðan flæðir að.

Stærstu ár Hollands. Lengd þeirra miðast við innanlands.

Röð Fljót Lengd innanlands Rennur í
1 Maas 250 km Waal
2 Lek (Rín norður) 130 km Norðursjó
3 Ijssel 125 km Ketelmeer
4 Waal (Rín suður) 100 km Norðursjó
5 Vecht 60 km Zwarte Meer
6 Oude Rijn (Gamla Rín) 52 Norðursjó

Vötn og lón

[breyta | breyta frumkóða]

Óvenjulegt við vötn í Hollandi er að flest stærstu vötnin eru manngerð, þ.e. þau voru áður fyrr hluti af sjónum en síðan lokuð af. Önnur mynduðust vegna varnargarða. Af þeim sökum er erfitt að henda reiður á stærð vatna þar í landi. Ijsselmeer er hins vegar langstærsta vatn Hollands með ca. 1.100 km2 og er að flatarmáli stærra en öll önnur vötn Hollands til samans. Það er norðarlega í landinu og sker landið nærri því í tvennt. Ijsselmeer var áður fyrr fjörður og hét þá Zuidersee (Suðursjór). En 1932 var byrjað á að reisa varnargarð og hraðbraut við fjarðarmynnið og loka því af. Síðan þá er vatnsborð Ijsselmeer fyrir neðan sjávarmál og þarf að pumpa vatninu upp og út í sjó. Suðurhluti vatnsins hefur verið þurrkaður og þar hefur myndast heilt fylki, Flevoland. Helstu borgir við vatnið eru Amsterdam, Hoorn, Volendam, Enkhuizen, Lelystad og De Lemmer. Ijsselmeer er nefnt eftir ánni Ijssel sem rennur óbeint í það. Orðið –meer á hollensku merkir ekki sjór, heldur vatn. Önnur stór vötn í Hollandi eru Oosterschelde, Grevelingen og Haringvliet. Þau voru öll hluti af sjónum áður fyrr.

Eyjaklasar og eyjar

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af Vesturfrísnesku eyjunum. Litlu tölusettu eyjarnar eru óbyggðar smáeyjar

Í Hollandi er einn eyjaklasi, Vesturfrísnesku eyjarnar. Þær eru í Vaðhafinu fyrir norðan meginlandið og eru framhald af Austurfrísnesku eyjunum sem tilheyra Þýskalandi. Stærst Vesturfrísnesku eyjanna er Texel. Hún var í upphafi tvær eyjar, en uxu saman 1835 eftir miklar þurrkunarframkvæmdir og gróðursetningu melgresis. Allar eru eyjarnar miklir bað- og ferðamannastaðir. Sumar þeirra eru friðaðar vegna fuglavarps og selaláturs. En stærsta eyja Hollands er Flevoland, sem varð til er suðurhluti Ijsselmeer var þurrkaður 1986. Áður fyrr voru margar stórar eyjar í óshólmum Rín, Maas og Schelde, en eftir að Deltaplan var hleypt af stokkunum 1953 voru varnargarðar lagðir á hinum ýmsum stöðum milli eyjanna, þannig að þær teljast ekki eyjar lengur. Stærstu eyjar Hollands:

Röð Eyja Stærð í km2 Íbúafjöldi Staðsetning Höfuðstaður
1 Flevoland ca. 950 Ijsselmeer Lelystad
2 Texel 169 13.700 Vesturfrísnesk eyja Den Burg
3 Terschelling 88 7.400 Vesturfrísnesk eyja West-Terschelling
4 Ameland 60 3.500 Vesturfrísnesk eyja Nes
5 Vlieland 40 1.100 Vesturfrísnesk eyja
6 Schiermonnikoog 39 990 Vesturfrísnesk eyja
Willemstadt á Curacao er höfuðstaður Hollensku Antillaeyja

Síðan 1598 hafa Hollendingar ávallt átt nýlendur. Fyrsta nýlendan var eyjan Máritíus í Indlandshafi en hún var yfirgefin 1710. Aðrar þekktar nýlendur í Asíu voru Hollensku Austur-Indíur (hlutu sjálfstæði 1949), Agra á Indlandi, Ceylon (var hertekin af Bretum 1796) og nokkrar fleiri. Í Afríku áttu Hollendingar meðal annars eyjuna Sao Tomé, Grænhöfða í Senegal og Höfðaland í Suður-Afríku. Í Ameríku áttu Hollendingar ýmsar eyjar, aðallega þó í Antillaeyjum, og Hollenska Guyana. Hið síðastnefnda hlaut sjálfstæði 1973 undir nafninu Súrínam. Í dag eru aðeins nokkrar eyjar í Antillaeyjum eftir í eigu Hollands.

  • St. Maarten (síðan 1620)
  • Saba (síðan 1620)
  • Bonaire (síðan 1633)
  • Curacao (síðan 1634)
  • St. Eustatius (síðan 1636)
  • Arúba (síðan 1636)

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðfáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Hollands er þrjár láréttar rendur: Rauð, hvít og blá. Þessi þrílita fáni notaði prinsinn Vilhjálmur frá Óraníu-Nassau í fyrsta sinn 1579 í bardaga gegn Spánverjum í frelsisstríði landsins. Upphaflega var ekki rautt, heldur appelsínugult í fánanum sem tákn Óraníuættarinnar, en skipt var á litum 1630. Fáninn kallast prinsenvlag (prinsaflaggið) og var formlega samþykktur af Vilhelmínu drottningu 1937. Skjaldarmerki Hollands er gullið ljón á bláum fleti. Tvö önnur gullin ljón eru sitthvoru megin við og efst er gullkóróna. Neðst er borði með áletruninni: Je Maintiendrai, sem merkir ég mun vara. Yfir þessu öllu er sveipaður konunglegur möttull og enn ein kórónan efst. Skjaldarmerkið var innleitt 1815 við stofnun konungsríkis Hollands og er samsett af merkjum Hollands og valdaættarinnar Óraníu-Nassau.

Í Hollandi er þingbundin konungsstjórn. Konungur/drottning landsins velur forsætisráðherran og aðra ráðherra í samráði við forystu stjórnmálaflokkanna. Venjulega er sá maður valinn sem er formaður stærsta stjórnmálaflokksins eftir almennar þingkosningar. Þingið samanstendur af tveimur deildum. Í efri deild eru fulltrúar fylkja, en í neðri deild eru frambjóðendur kosnir beint í almennum kosningum. Þingkosningar voru síðast haldnar árið 2023. Eftir þær var Dick Schoof valinn sem forsætisráðherra samsteypustjórnar.

Dick Schoof hefur verið forsætisráðherra Hollands síðan 2024.

Síðustu forsætisráðherrar (eftir stríð).

Röð Forsætisráðherra Frá Til Ath.
1 Wim Schermerhorn 1945 1946
2 Louis Beel 1946 1948
3 Willem Drees 1948 1958
Louis Beel 1958 1959 Í annað sinn
4 Jan de Quai 1959 1963
5 Victor Marijnen 1963 1965 Varð síðar borgarstjóri í Haag
6 Jo Cals 1965 1966
7 Jelle Zijlstra 1966 1967 Kláraði kjörtímabil forvera síns
8 Piet de Jong 1967 1971
9 Barend Biesheuvel 1971 1973
10 Joop den Uyl 1973 1977
11 Dries van Agt 1977 1982
12 Ruud Lubbers 1982 1994
13 Wim Kok 1994 2002 Sagði af sér mánuð fyrir kosningar
14 Jan Peter Balkenende 2002 2010
15 Mark Rutte 2010 2024 Hefur setið lengst allra
16 Dick Schoof 2024
Vilhjálmur Alexander hefur verið konungur Hollands frá árinu 2013.

Konungar/drottningar Hollands frá stofnun konungsríkisins. Allir nema Emma eru af Óraníu-Nassau ættinni sem á uppruna sinn í Þýskalandi.

Röð Þjóðhöfðingi Frá Til Ath.
1 Vilhjálmur I 1815 1840 Sagði af sér sökum aldurs
2 Vilhjálmur II 1840 1849 Dó í embætti
3 Vilhjálmur III 1849 1890 Dó í embætti
4 Emma 1890 1898 Sat fyrir ómynduga dóttur sína
5 Vilhelmína 1890 1948 Sagði af sér sökum aldurs
6 Júlíana 1948 1980 Sagði af sér sökum aldurs
7 Beatrix 1980 2013 Sagði af sér sökum aldurs
8 Vilhjálmur Alexander 2013

Samkvæmt stjórnarskránni fer ríkistjórn landsins með yfirstjórn hersins. Hann skiptist í fjórar deildir: Landher, sjóher, flugher og þjóðarlögreglan. Allt í allt starfa um 44 þús manns sem hermenn í öllum þessum deildum. Í Hollandi var herskylda allt til 1996, en síðan þá hefur hernum verið breytt í atvinnuher. Verkefni hersins eru að verja móðurlandið og Hollensku Antilleyjar fyrir hugsanlegri árás óvina. Í samvinnu við NATÓ og Sameinuðu þjóðirnar starfar herinn einnig að alþjóðlegum verkefnum, og aðstoðar gjarnan við hamfarir. Útgjöld vegna hernaðar nema 1,4% af heildartekjum landsins.

Höfuðborg

[breyta | breyta frumkóða]
Binnenhof í Hag er aðsetur hollenska þingsins

Höfuðborg Hollands er Amsterdam, þrátt fyrir að ríkistjórnin sitji ekki þar, en samkvæmt stjórnarskrá landsins er Amsterdam höfuðborgin.[2] Þar er aðsetur þjóðhöfðingjans og hefur verið síðan Hollandi var breytt í konungsríki 1815. Ríkisstjórnin situr í borginni Haag, sem er höfuðborg fylkisins Suður-Hollands. Þar er einnig Alþjóðadómstóllinn með aðsetur.

Hollandi er skipt niður í tólf fylki (provincie). Það yngsta, Flevoland, var stofnað 1986 er suðurhluti IJsselmeer var þurrkaður upp og numinn. Fylki Hollands eftir stærð:

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Gjaldmiðill

[breyta | breyta frumkóða]

Gjaldmiðill Hollands er evran en hún var tekin upp þar í landi 2002. Áður notuðu Hollendingar gyllini (Gulden). Gyllinið var notað sem mynt í ýmsum löndum í Evrópu. Hollendingar byrjuðu að nota gyllini að einhverju leyti allt frá 1378 þegar Vilhjálmur V greifi af Hollandi og Sjálandi (Zeeland) lét þrykkja fyrstu slíku myntina. Opinberlega var gyllinið tekið í notkun 1601. Árið 1999 var evran fyrst notuð í uppgjöri fyrirtækja, en 1. janúar 2002 tók hún við sem gjaldmiðill landsins.

Íbúar Hollands eru tæplega 17 milljónir talsins og búa flestir í stórborgunum í vesturhluta landsins. Holland er meðal þéttbýlustu landa heims, en þar búa að jafnaði 397 íbúar á km. Rétt tæp 20% landsmanna eru af erlendum uppruna, flestir frá Indónesíu, eða tæp 390 þús manns en rétt á eftir koma Þjóðverjar (380 þús manns).

Kort af útbreiðslu trúfélaga. Grænt er þar sem kaþólikkar eru í meirihluta, rautt þar sem kalvínistar eru í meirihluta.

Í Hollandi eru töluð tvö viðurkennd tungumál: hollenska og frísneska. Hollenska er vesturgermanskt tungumál og náskylt þýsku. Nokkur munur er á málinu eftir landsvæðum, en það er einnig talað sums staðar í Belgíu auk núverandi og fyrrverandi nýlenda Hollendinga en einnig er tungumálið afríkanska (afrikaans), sem talað er í sunnanverði Afríku upprunnið úr hollensku. Frísneska er nær eingöngu töluð í héraðinu Fríslandi og á Frísnesku eyjunum undan norðurströndinni. Málið er náskylt þýsku og dönsku og er einnig talað í strandhéruðum Þýskalands við Norðursjó. Þeir íbúar Hollands sem tala frísnesku, tala einnig hollensku.

Trú manna í Hollandi er ákaflega misjöfn, meira en gengur og gerist í Vestur-Evrópu. 55.1% landsmanna kenna sig ekki við nein trúarbrögð, hvorki kristin né önnur en það er eitt stærsta hlutfall á vesturlöndum. 23,7% eru kaþólskir og 10.2% mótmælendur (flestir eru Kalvínstrúar), og 5.8% múslimar. Flestir kaþólikkar búa í suðurhluta landsins (Limburg og Brabant).

Vísindi og listir

[breyta | breyta frumkóða]
Málverkið Næturvaktin eftir Rembrandt (1642)

Á gullaldarárum Hollands komu fram margir frægir lista- og vísindamenn. Meðal þekktustu málara er án efa Rembrandt, en verk hans þykja dýrgripir í dag. Af öðrum þekktum málurum má nefna Hieronymus Bosch, Jan Vermeer, Frans Hals, Jan Steen og Vincent van Gogh. Skáldskapur hefur staðið svolítið í skugga myndlistarinnar. Þó eru Joost van den Vondel, Pieter Cornelszoon Hooft, Harry Mulisch og Gerard Reve þekkt nöfn þar í landi. Meðal þekkstustu vísindamanna Hollendinga má nefna Erasmus frá Rotterdam, húmanisti, heimspekingur og guðfræðingur, Christiaan Huygens, stærðfræðingur og eðlisfræðingur, og Antoni van Leeuwenhoek, sem smíðaði fyrstu smásjána.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]
Skautahlaup hefur verið ein vinsælasta íþrótt Hollendinga

Hollendingar hafa á afburða íþróttamönnum og konum að skipa. Þjóðaríþrótt Hollendinga áður fyrr var skautahlaup, en það er enn ein vinsælasta íþrótt almennings. Fólk notaði frosin síki til að fara á skauta. Hollensk knattspyrna er á heimsklassa. Karlalandsliðið hefur þrisvar leikið til úrslita á HM, en ávallt tapað, síðast fyrir Spáni 2010. Meðal þekktustu knattpyrnumanna má nefna Johan Cruijff og Marco van Basten. Hollenskir þjálfarar eru eftirsóttir víða um heim. Holland og Belgía héldu í sameiningu EM í knattspyrnu árið 2000. 1928 voru sumarólympíuleikarnir haldnir í Amsterdam. Amsterdam og Rotterdam eru að sækja um að fá að halda þá að nýju fyrir árið 2028. Ólympíuleikar þroskaheftra voru haldnir í Arnhem 1980.

Ostasala í borginni Gouda

Hollensk matargerð er ekki eins þekkt og í ýmsum öðrum evrópskum löndum. Þó er Holland þekkt ostaland. Helstu ostar þar eru Edammer (frá borginni Edam), Goudse kaas (frá Gouda), Leerdammer (frá Leerdam), Delft (frá Delft) og ýmsa fleiri. Ostamarkaðurinn í Gouda er heimsfrægur, en þar eru ostauppboð haldin undir berum himni.

Ólíkt því sem gerist í öðrum löndum er enginn eiginlegur þjóðhátíðardagur í Hollandi. Í stað þess er haldið upp á konungsdaginn. Ekki er 1. maí heldur haldinn hátíðlegur þar í landi. Stríðslokahátíðin eftir heimstyrjöldina síðari er haldinn 5. maí, ekki 8. maí eins og í nokkrum öðrum evrópskum löndum, því Þjóðverjar og Hollendingar sömdu um frið þremur dögum fyrir hin eiginlegu stríðslok. Opinberir helgidagar í Hollandi:

Dags. Helgidagur Ath.
1. janúar Nýársdagur
Breytilegt að vori Föstudagurinn langi Eingöngu fyrir suma
Breytilegt að vori Páskar Sunnudagur og mánudagur
27. apríl Konungsdagur Fæðingardagur Vilhjálms Alexanders konungs
4. maí Minnisdagur Minningardagur fyrir látna í stríðinu (ekki frídagur)
5. maí Frelsisdagur Minnisdagur fyrir endalok heimstyrjaldarinnar síðari
Breytilegt Hvítasunna Sunnudagur og mánudagur
5. desember Nikulásarkvöld Gjafadagur fyrir börn (ekki frídagur)
25. og 26. desember Jól
31. desember Gamlársdagur (ekki frídagur)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Hvað merkir holið í Hollandi?“. Vísindavefurinn.
  2. „Hver er höfuðborg Hollands?“. Vísindavefurinn.
  翻译: