Fara í innihald

Karl Marx

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Marx
Fæddur5. maí 1818
Dáinn14. mars 1883 (64 ára)
DánarorsökBerkjubólga
ÞjóðerniÞýskur
MenntunHáskólinn í Bonn
Berlínarháskóli
Háskólinn í Jena
Þekktur fyrirKommúnistaávarpið, Auðmagnið
MakiJenny von Westphalen (g. 1843; d. 1881)
BörnAð minnsta kosti 7, þ. á m. Jenny, Laura og Eleanor
ForeldrarHeinrich Marx Henriette Pressburg
Undirskrift

Karl Heinrich Marx (5. maí 181814. mars 1883) var mjög áhrifamikill þýskur hagfræðingur, heimspekingur og stjórnmálaspekingur sem er frægastur fyrir greiningu sína á mannkynssögunni í anda þráttarefnishyggju Friedrichs Hegel sem röð átaka milli ólíkra stétta. Hann greindi samfélag kapítalismans (samfélagið eins og það er eftir iðnbyltinguna) og taldi meðal annars að reglulegar og sívaxandi efnahagskreppur væru innbyggðar í slíkt hagkerfi og myndu á endanum leiða til hruns þar sem stéttlaust samfélag tæki við. Hugmyndir hans veittu öðrum hagfræðingum innblástur, jafnvel breyttust heilu samfélögin.[1] Frá honum koma grundvallarhugtök í marxískum fræðum sem eru kölluð „marxísk hugtök“. Um 1990 fóru hugmyndarmenn að einbeita sér að kapítalismanum frá marxískum hugmyndum. En jafnvel enn í dag eru samfélög sem eru að reyna að finna milliveginn. Satt að segja hafði Marx gríðarleg áhrif á hvernig samfélagið í dag starfar. [1]

Marx barðist fyrir lýðræðislegum réttindum og var andsnúinn pólítískri stjórn, sérstaklega á námsárum hans, þar sem hann lærði lögfræði og heimspeki. Hann var ritstjóri fyrir frjálslynt tímarit og voru skoðarnir hans það sterkar sem leiddi til þes að hann komst í vandræði við embætti ritskoðarara í Prússlandi og var að lokum rekinn úr því landi. Hann leitaði síðar skjól í París (1843 til 1845), síðar til Brussel (1845-1847), síðan til Köln (1848 til 1849) og að lokum settist hann að í London árið 1849. [2]

Árin 1842 til 1849 höfðu mótandi áhrif á Marx og tók hann virkan þátt í stjórnmálum. Á þessu merka tímabili hitti hann Friedrich Engels.[2] Síðar skrifuðu þeir Kommúnistaávarpið sem var leiðandi við stofnun Fyrstu alþjóðasamtaka verkalýðsins í London 1864.

Marx er iðulega tengdur við sósíalisma og kommúnisma en einnig hann lærði viðfangsefni sem hann kallaði kapítalisma. Hann ásamt Friedrich Engels gáfu út ritið Auðmagnið árið 1867. [1]

Marx var andsnúinn einkarétt kapítalistanna á framleiðslutækjum og framleiðsluþáttum. Að hans mati gátu sósíalistar ekki skýrt „lögmál kapítalísmans“ nógu vel. Þá sótti hann innblástur til David Ricardo, sem var stór landeigandi og kapítalisti. Ricardo dróg ályktanir frá almennum forsendum, Marx tók þessa aðferð Ricardo og tengdi við málfræði Hegels. Eftir næstum tveggja áratuga nám í klassískri hagfræði gaf Marx úr fyrsta rit sitt af aðalverki hans, Auðmagnið sem kom út 1867. Þar sem hann gagnrýnir kapítaliskt kerfi og notar vinnugildiskenninguna til að andmæla klassísku hagfræðingana. Vörur í kapítalísku kerfi eru seldar á því verði sem endurspeglar verðmæti þeirra og öll verðmæti eru mæld í vinnustundum, þá geta kapítalistar ekki notið hagnaðar nema þeir borgi launþegum minna en raunvirði þeirra. Vélar munu koma í stað vinnuafls þar sem kostnaðurinn er of hár. Hagnaður myndi að lokum lækka, fyrirtæki keppast um vélar til þess að sleppa við launakostnað, fyrirtæki fara í gjaldþrot og stóru fyrirtækin kaupa að lokum litlu fyrirtækin sem voru gjaldþrota og að lokum myndi kapítalískt kerfi eyða sjálfu sér út.[3]

Útfærslur á sósíalisma sem byggjast á verkum Marx eru oft kallaðar einu nafni marxismi. Marxismi hafði mjög mikil áhrif á stjórnmál og vísindi á 19. og 20. öld, ekki síst eftir Októberbyltingu bolsévika í Rússlandi 1917.

Marx var næstelstur níu systkina.[4] Í stjórnmálaskoðunum hneigðist fjölskylda hans til frjálslyndis og róttækni.[5] Foreldrar hans, Heinrich Marx og Henriette Pressburg voru Gyðingar sem komu af langri röð rabbína. Þau höfðu mjög veraldlega heimssýn en hvorugt þeirra strangtrúað.[4] Faðir hans var lögfræðingur og til að auka starfsmöguleika hans tók fjölskyldan upp kristna trú eftir að Marx fæddist. H. Marx vonaðist alltaf eftir því að sonur hans myndi einnig leggja stund á lögfræði, Marx sýndi lögfræði þó aldrei áhuga og heillaðist af heimspekilegri umræðu samtímans.

Marx kvæntist æskuást sinni, Jenny Von Westphalen, 19. júní 1843. Hún stóð alla tíð við bakið á eiginmanni sínum, þrátt fyrir að fjölskyldan lifði í fátækt sökum þess að Marx varði öllum tíma sínum til rannsókna og ritstarfa. Hún lést úr krabbameini sextíu og sjö ára að aldri. Andlát hennar var Marx mikið áfall sem hann náði sér aldrei eftir. Þau eignuðust saman sjö börn þar sem alltaf ríkti mikil ást á milli,[6] en fjögur barnanna létust í barnæsku.[6] Heimili þeirra var oft í mikilli óreiðu, fyrst og fremst sökum rannsókna Marx sem safnaði dagblöðum og pappírum í stóra stafla sem söfnuðu ryki. Þrátt fyrir nákvæmni í akademískum vinnubrögðum einkenndist umgengni Marx heimafyrir og á skrifstofu hans síst af reglusemi. Auk stafla af rannsóknargögnum reykti Marx mikið, sem bætti ekki loftvist heimilisins.[5]

Í útliti var Marx var lýst sönnum byltingarmanni, með leiftrandi augnaráð. Þéttvaxinn og kraftalega byggður, dökkur yfirlitum, mikið dökkt skegg, dökk og djúpstæð augu. Börn hans áttu það til að kalla föður sinn „Márann“.[5] Samtímamenn Marx lýstu honum sem áhugaverðum og nákvæmum einstakling. Hann vann langa vinnudaga, sem helgaðist bæði af fullkomnunaráráttu og vönduðum vinnubrögðum.

Nákvæmnin og fullkomnunaráráttan voru helsta ástæða þess að Marx náði aldrei að ljúka við höfuðrit sitt, Auðmagnið. Aðeins fyrsta af fjórum bindum kom út fyrir andlát hans, og féll það í skaut nánasta samstarfs manns, Friedrich Engels, að koma öðru, þriðja og fjórða bindinu út. Að Marx látnum lágu eftir þúsundir blaðsíðna af handritum sem hann hafði ekki klárað eða gengið frá til birtingar. Engels vann við að búa þau til birtingar. Það tók langan tíma að ljúka þeirri vinnu, sem réðist bæði af umfangi handrita Marx, og því að rithönd Marx var torlesin, auk þess sem hann talað fremur bjagaða ensku, þrátt fyrir tuttugu ára æfingu í tungumálinu. Víða í skrifum Marx má sjá merki þessarar bjöguðu ensku.[5] Engels lauk að ganga frá öðru og þriðja bindi Auðmagnsins, en náði ekki að ljúka því fjórða áður en hann lést árið 1895. Hann hafði áður kennt Karl Kautsky að lesa rithönd Marx til að halda verkinu áfram. Heildarútgáfa Auðmagnsins í fjórum bindum birtist loks undir ritstjórn Kautsky á árunum 1905-1910.[7]

Kommúnistaávarpið

[breyta | breyta frumkóða]

Kommúnistaávarpið er eitt áhrifamesta rit allra tíma skrifað af Karl Marx. Hann fékk aðstoð frá samstarfsmanni sínum Friedrich Engels og var það þeirra helsta framlag hagfræðinnar. Ritið var gefið út í London 21. febrúar 1848 af hópi byltingarsinnaðra sósíalista frá Þýskalandi sem kölluðu sig Kommúnistabandalagið.[8]

Ávarpið leggur línurnar fyrir byltingu öreiganna gegn oki kapítalismans til að koma á stéttlausu samfélagi. Það lýsir yfir að saga alls núverandi samfélags sé saga stéttabaráttu og að óumflýjanlegur sigur verkalýðsins myndi binda enda á stéttasamfélagið að eilífu.[9]

Verkið var upphaflega gefið út á þýsku en hafði ekki mikil áhrif á samfélagið strax. Hugmyndir ritsins endurómuðu af auknum krafti á 20. öldinni og árið 1950 bjó næstum helmingur jarðarbúa undir marxískum ríkisstjórnum. [8]

Forsaga ávarpsins

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1842 hóf Karl Marx störf sem blaðamaður og varð ritstjóri frjálslynds lýðræðisblaðs í Köln í Þýskalandi. Þar kynntist Marx vel samtímaumræðu um stjórnmál og efnahagsmál sem mun hafa leitt til þess að með honum fóru að myndast skoðanir á hugmyndum í anda þeirra sögulegu efnishyggju sem hann er hvað frægastur fyrir.[9] Blaðið stækkaði undir hans stjórn[8] en árið 1843 lögðu prússnesk yfirvöld blaðið niður fyrir of mikla hreinskilni.

Þá flutti Marx til Parísar sem var á þessum tíma miðstöð sósíalískrar hugsunar. Í París tók Marx upp öfgafyllra form sósíalisma sem kallaðist kommúnismi og varð ritstjóri á nýju pólitísku blaði. Kommúnismi kallaði á byltingu verkalýðsstéttarinnar sem myndi rífa niður kapítalíska heiminn. Í París kynntist Marx félaga sínum Friedrich Engels, samlanda sínum sem var á sömu skoðun og hann og átti eftir að verða ævilangur samstarfsmaður.[8]

Árið 1844[9] var Marx vísað úr Frakklandi og settist þá að í Brussel, hann afsalaði sér prússnesku ríkisfangi og Engels gerði slíkt hið sama. Á næstu tveimur árum þróuðu Marx og Engels hugmyndir sínar um kommúnisma og urðu vitsmunalegir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar.[8] Einnig einbeitti Marx sér að víðtækum sagnfræðirannsóknum sem tengdust áframhaldandi mótum hugmyndar hans um sögulega efnishyggju.

Um svipað leyti var þeim Engels boðið að ganga í leynifélagið „League of the Just“. Það samanstóð af byltingarsinnuðum Þjóðverjum sem höfðu aðsetur í London[9] og urðu þeir Engels leiðtogar hópsins. Þeir nefndu hópinn á ný og hét þá orðið Kommúnistabandalagið. Þeir bjuggu til stefnuskrá fyrir bandalagið árið 1948, þar sem kenningar bandalagsins voru samanteknar sem hét Kommúnistaávarpið og notuðust þeir við fyrirmynd sem Engels hafði skrifað fyrir bandalagið árið áður. Margar af hugmyndum Kommúnistaávarpsins voru ekki nýjar, en Marx hafði sett saman ólíkar hugmyndir af efnishyggju sinni á sögu.[8]

Skömmu eftir útgáfu kommúnistaávarpsins flutti Marx til Parísar og síðar meir aftur til Köln í Þýskalandi. Árið 1848 endaði hins vegar ekki með byltingu slíkt og þeir Engels höfðu boðað í ávarpinu[9] en ávarpið hefst einmitt á þessum dramatísku orðum „Vofa gengur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans“ og endar á því að lýsa yfir, að verkamenn hafa engu að tapa nema hlekkjum sínum.[8] Ári eftir útgáfu ritsins, var ritið bannað af stjórnvöldum og Marx fluttist til London, þar sem hann átti eftir að búa til æviloka. Hann var bjartsýnn á það að kommúnísk bylting væri á næsta leiti og einbeitti sér að stjórnmálaþáttöku næstu ár.

Auðmagnið

[breyta | breyta frumkóða]

Marx fór þó að hallast að því að það yrði ekki bylting þar sem það þyrftu að skapast ákveðnar félagslegar og efnahagslegar aðstæður í samfélaginu. Hann fór í ítarlega rannsóknarvinnu til þess að skoða betur hvernig slíkar aðstæður gætu myndast en þessar rannsóknir birtust svo í riti hans Das Kapital eða Auðmagninu, sem var einnig eitt af hans þekktustu ritum. Hann vann Auðmagnið síðan meira eða minna til hans dauðadags árið 1883.[9]

Þegar Marx lést árið 1883 var kommúnisminn orðinn að hreyfingu sem átti eftir að endurróma í Evrópu síðar. Þrjátíu og fjórum árum síðar, árið 1917  leiddi Vladímír Lenín, marxisti, fyrstu farsælu kommúnistabyltinguna í Rússlandi sem var þó ákveðinn marx-lenínismi.[8]

Fall kapítalismans

[breyta | breyta frumkóða]

Marx spáði falli kapítalismans í nokkrum skrefum.

Fyrst myndi þennsluskeið kapítalismans skapa aukna þörf á vinnuafl, sem myndi þar af leiðandi þrýsta launum upp á við. Kapítalistanir hafa það markmið að hámarka auðsöfnunina, leita til fjárfestinga í vélum þar sem vinnuaflið var orðið dýrt. Fyrirtækin byrja að leita til vélvæðingar til þess að auðsöfnunin haldast sú sama. Samkvæmt vinnugildiskenningunni getur auðsöfnun einugis átt sér stað með arðráni á verkalýðnum og með lægri launum, taldi því Marx að fyrirtæki gætu ekki hagnast á fjárfestingu véla. Fyrirtækin keppast um að vera fyrst að taka í notkun vélar og í þeim átökum missir fleira fólk vinnuna. Atvinnuleysið veldur því að heildarneysla samfélagsins minnkar og þar af leiðandi lækkar hagnaður fyrirtækja. Hörð samkeppni ríkir meðal kapítalista sem leiðir til þess að frekari vélvæðing eigi sér stað og við það fækkar smærri fyrirtækjum. Þau sem eftir standa stækka enn frekar og enn bætist í hóp atvinnuleysingjahersins. Þau fyrirtæki sem ekki fóru í gjaldþrot, kaupa fleiri tæki og borga lægra verð en raunverulegt virði tækjanna er.

Þessi hringrás veldur því að fleiri verða atvinnulausir og því fjölgar í atvinnuleysingjahernum.

Aðstæður í samfélaginu versna og ásamt því eymd og þjáning. Við það vaknar upp stéttarvitund. Fall kapítalismans verður þegar þjáningin fer yfir suðumark og byltingin hefst. Þar munu öreiganir taka framleiðslutækin í sínar hendur og við það liðast veldi kapítalismans í sundur.[10]

Kenningar um sögu

[breyta | breyta frumkóða]

Marxísk hugmyndafræði sameinar Hegelíska heimspeki, franska útópíska hugmyndafræði og hugmyndir David Ricardo á klassísku stjórnmálahagkerfi. Marx sótti innblástur til Hegel um greiningu á sögu. Hegel hélt því fram að saga væri ekki hringrás atburða heldur ætti hún sér stað í beinni línu og tekur á sig þrjú form. Fyrst verður til hugmynd, síðan myndast andstæða hugmyndarinnar sem myndar átök, þessi átök eru lokastigið. Lokastigið gefur skýrari mynd af sannleikanum sem verður svo að hinni nýju hugmynd, þetta endurtekur sig síðan. Þetta er því óendanleg keðja atburða og hver einasta hugmynd færist nær sannleikanum. Sagan þróast í gegnum ferli þar sem allar hugmyndir verða æ fullkomnari vegna átaka. Þetta kallaði Hegel þráttarefnishyggju eða díalektík. Marx þróaði svipaðar hugmyndir um sögu og kallaði hann það einnig þráttarefnishyggju.

Munurinn á speki Marx og Hegels var að Hegel hélt því fram að breytingar spruttu upp frá hugmyndum en Marx hélt því fram að breytingar ættu sér efnislegar orsakir, því var speki Marx díalektísk efnishyggja. Marx gagnrýndi kapítalíska hagfræðinga sem skrifuðu um fortíðina en aldrei framtíðina, þó svo að kapítalismi hafi þróast frá öðrum kerfum, þá litu aðrir á það sem framtíðina. Marx taldi að breytingar væru mikilvægar, við vitum ekki hvað framtíðin hefur uppá að bjóða en Marx sagði að framtíðin mun vera öðruvísi en fortíðin og nútíminn. Marxísk kenning um sögu kemur skýrt fram í Kommúnistaávarpinu og bókinni hans Gagnrýni á stjórnmálahagfræði.[1]

Vinnugildiskenning Marx

[breyta | breyta frumkóða]

Karl Marx byggði hugmyndir sínar á vinnugildi að stórum hluta til á vinnugildiskenningu Davids Ricardo. Í Auðmagninu er sú kenning hryggjarstykkið í greiningu Marx á kapítalisma og því sem við köllum arðrán verkalýðsins.

Ein af lífseigustu hugmyndum hagfræðinnar er að allir hlutir hafi eitthvað algilt mælanlegt gildi. Marx íhugaði notagildi eins og aðrir hagfræðingar höfðu gert, en hafnaði því sem grundvelli efnahagslegs virðis og þar með verðs, og tók í staðinn upp þráðinn frá Ricardo um að vinnan sé alls staðar og að vinnugildið búi í öllum gæðum. Marx nálgaðist vinnugildið á þann hátt að í öllum hlutum búi ákveðin vinna og þar af leiðandi sé til einhver ákveðin heildarvinna. Út frá því ímyndaði Marx sér að til væri einhverskonar meðalvinna sem myndar verðgildið. Hins vegar, rétt eins og hjá Ricardo, þurfti Marx að takast á við ýmis vandamál sem upp koma við slíka vinnugildiskenningu.

Vandamál faglærðs vinnuafls

[breyta | breyta frumkóða]

Stærsta vandamálið sem Marx mætti í kenningu sinni er mannauðurinn. Kenning hans snýst um að flytja hreinan vinnutíma í vöruna sjálfa en þá er erfitt að skýra ólíkt verð ófaglærðs og faglærðs vinnuafls. Til þess að gera grein fyrir þessu horfði Marx á meðalvinnuna og tengdi hana við framleiðni. Þannig hefur vinna framleiðnari vinnuafls meira gildi í hlutfalli við meðalvinnuna. Hér víkur Marx frá hugmyndum Adam Smith um laun sem mælikvarða á vinnu.

Áhrif fastafjármuna á hlutfallslegt verð

[breyta | breyta frumkóða]

Annað vandamál sem Marx stóð frammi fyrir var hvernig ætti að gera grein fyrir áhrifum fastafjármuna á hlutfallslegt verð vöru. Marx notaðist hér við niðurstöður Ricardo um að í þeim byggi uppsöfnuð vinna. Það þyrfti alltaf vinnu til þess að fá eitthvað fram og þannig endurspegli hlutfallslegt verð hlutfallslega vinnu.

Arðrán verkalýðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Enn eitt vandamálið sem felst í skilgreiningu vinnugildis er hvernig hlutfall vinnu og fjármagns hefur áhrif á hagnað ýmis atvinnugreina og fyrirtækja. Samkvæmt Marx þá eru gæði í kapitalísku samfélagi framleidd til þess að skapa hagnað. Arðrán verkalýðsins felst í því að verkalýðurinn selur vinnuaflið eftir samningum kapítalista. Vinnulaun eru ákvörðuð af „járnlögum launanna“ sem klassískir hagfræðingar aðhylltust, en lögmálið gengur út á að verkalýðurinn fái aldrei greitt meira fyrir vinnu sína en sem nemur kostnaði við „endurframleiðslu“ hans, þ.e. það lágmark sem þarf til að verkalýðurinn geti lifað af. Þar sem kapítalistarnir, eigendur framleiðslutækjanna (fjármagnsins), geta ákvarðað kjör verkalýðsins sem er algerlega upp á þá kominn, láta þeir verkamennina vinna lengur en það tekur þá að framleiða verðmæti sen duga til að greiða laun og annan kostnað. Þessum mismun heldur kapítalistinn eftir í formi arðráns.

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Landreth, Harry (2002). History of economic thought. David C. Colander (4th ed. útgáfa). Boston: Houghton Mifflin. ISBN 0-618-13394-1. OCLC 50175877.
  2. 2,0 2,1 Samuels, Warren J. (2003). A companion to the history of economic thought. Jeff Biddle, John Bryan Davis. Malden, MA: Blackwell. ISBN 1-4051-2896-8. OCLC 55771354.
  3. Sandelin, Bo (2014). A short history of economic thought. Hans-Michael Trautwein, Richard Wundrak (Third edition. útgáfa). New York. ISBN 978-1-138-78019-4. OCLC 871219752.
  4. 4,0 4,1 Editors, History com. „Karl Marx“. HISTORY (enska). Sótt 7. október 2022.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 Robert L. Heilbronner (1999). The Worldly Philosophers: The Lives, Times And Ideas Of The Great Economic Thinkers, Seventh Edition. Simon & Schuster. bls. 286-291.
  6. 6,0 6,1 „Karl Marx Biography - life, childhood, children, history, school, young, son, information, born, time, year“. www.notablebiographies.com. Sótt 7. október 2022.
  7. Baumol, William J. (1979). „On the Folklore of Marxism“. Proceedings of the American Philosophical Society. 123 (2): 124–128. ISSN 0003-049X.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 8,5 8,6 8,7 Editors, History com. „Karl Marx publishes Communist Manifesto“. HISTORY (enska). Sótt 17. september 2022.
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 9,4 9,5 „Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið?“. Vísindavefurinn. Sótt 17. september 2022.
  10. Robert L. Heilbronner (1999). The Worldly Philosophers: The Lives, Times And Ideas Of The Great Economic Thinkers. Simon and Schutster. bls. 99-100.
  翻译: